Meistaramóti GKG fer nú óðum að ljúka, en það hefur staðið yfir frá sunnudeginum. Kylfingar hafa reynt sig í blíðskaparveðri og notið þess að spila golf á okkar flotta velli. Glæsileg tilþrif og góð skor hafa sést, en það besta hingað til náði Guðjón Ingi Kristjánsson er hann spilaði annan hringinn sinn á 68 höggum og dugði það honum til sigurs í flokki 17-18 ára. Einnig má nefna að að elsti kylfingur mótsins, Haukur Bjarnason sem verður áttræður í haust, náði þeim frábæra árangri að spila á lægri skori en aldurinn – 78 högg! Dugði það honum til öruggs sigurs í flokki 70 ára og eldri.
Í meistaraflokki karla leiðir Sigmundur Einar Másson hópinn á einu höggi undir pari þegar keppni er hálfnuð. Guðjón Henning Hilmarsson fylgir á eftir á einu höggi yfir pari.
Mótinu lýkur á laugardaginn og þá verður haldið glæsilegt lokahóf hér í skálanum. Verðlaunaafhending verður þar sem efstu þrír kylfingar í hverjum flokki eru heiðraðir fyrir árangur sinn. Veitingamennirnir ætla síðan að slá upp frábærri grillveislu og skemmtinefnd GKG stendur fyrir laufléttum skemmtiatriðum. Fjörið hefst klukkan 19:00 með verðlaunaafhendingunni og kostar aðeins 2.000 krónur. Miðasala er þegar hafin í ProShop og hvetjum við fólk til að minnsta kosti boða komu sína sem fyrst svo við getum áætlað fjölda gesta. Allir velkomnir, hvort sem þeir spiluðu illa, vel eða bara alls ekki í meistaramótinu!