Golfaðstaðan var glæsileg. Á svæðinu er eitt stærsta sláttusvæði (range) í Evrópu, en þar geta 120 kylfingar slegið samtímis og af grasi, ekki mottum. Þó töldu bestu kylfingar að stækka mætti æfingasvæði fyrir stutta spilið nokkuð og verður þeim athugasemdum komið á framfæri. Golfvöllurinn sjálfur var 27 holur, auk 9 holna par-3 vallar. Þess má geta að holur 1-18 á aðalvellinum voru vettvangur annars stigs úrtökumótaraðar GKGingsins Birgis Leifs fyrir Evrópumótaröðina liðið haust. Af því má væntanlega ráða nokkuð um gæði vallarins.

Sem að framan greinir var lagt í förina 28. mars. Flogið var beint til Jerez (sem er borið fram Heres á spænsku og svo er drykkurinn sérrí einnig kenndur við borgina, sem sýnir hversu hljóðvilltir Spánverjar eru). Þangað var komið seint að kveldi, eða fremur mjög snemma að morgni 29. mars. Þegar á áfangastað var komið kom í ljós að af um 150 golfpokum sem áttu að fara í vélina vantaði 16. Þeim var ekki drengilega skipt niður á ferðalanga, heldur heyrðu þeir allir GKGingum til. Sannaðist þar að stundvísi er ekki alltaf dyggð.

Segjast verður sem er að settleysi gerði ferðina minna settlega en hefði mátt vera fyrstu tvo dagana. Frábær æfingaáætlun kennaranna fór nokkuð úr skorðum við þetta og spiluðu kylfingar með hinum ýmsu lánssettum, voru þess meira að segja dæmi að þrímennt væri á sett. Góðu heilli komu settin hins vegar áður en lagt var upp í golf á 3ja degi, þótt ekki liti vel út framan hans. Voru ýmsir orðnir nokkuð langir í framan.

Að settunum fengnum varð ekki annað séð en kylfingar brostu hringinn og spiluðu flestir sparigolf. Tíminn var afskaplega vel notaður, æft hluta dags og spilað hinn hlutann. Þá náðu kennararnir báðir að spila með öllum afrekskylfingunum, sem vafalaust gefur þeim mun betri mynd af því hvar krakkarnir standa en nokkur æfing getur gert. Þá voru 3 kvöldfundir, þar sem farið var yfir ýmis atriði, m.a. leikskipulag. Fullyrða má að ungir GKG kylfingar búi að hreinum munaði í því að hafa Úlfar Jónsson sem kennara sem deilt getur með þeim leikskipulagi.

Ferðin varð til í samvinnu GKG við Keili. GKG sá um að útvega fjölda kylfinga og kom einnig sambandi á við verðandi Íslandsmeistara Breiðabliks í knattspyrnu, sem sendi liðlega 30 manna hóp í sömu ferð. Hörður Arnarson, hinn vaski þjálfari Keilis og margreyndur fararstjóri í golfferðum hjá Heimsferðum, kom síðan með sitt lið og hafði milligöngu um að útvega flugvél og gekk frá pöntun á hótelplássi. Þetta var frábær samvinna og það fór afar vel á með kylfingum úr Keili og GKG. Næstsíðasta daginn var spilaður Ryder leikur við Keili, sem gekk ágætlega, þótt GKG hyggi á hefndir að ári. Ekki var nefnilega annað að heyra á fólki en fullur vilji stæði til þess að endurtaka ferðina í næsta páskafríi.

Enginn vafi leikur á því að ferð sem þessi gefur afrekskylfingunum mikið. Þeir eflast sem kylfingar, samstaðan með þeim eflist og gleðin af leiknum einnig. Fyrir þá GKGinga sem ekki komust með í ferðina verður að koma fram að framkoma ungu kylfinganna var, hjá öllum sem einum, til algerrar fyrirmyndar og þannig að hvergi bar skugga á. Sýndi sig því að ekki einungis kunna krakkarnir golf, þau eru einnig frábærir einstaklingar, sér, fjölskyldum sínum og GKG til sóma.