Ágætu kvenkylfingar í GKG!

Vetrarstarfið er hafið. Ætlum við ekki að lækka forgjöfina í sumar? Þá er að mæta í Kórinn til æfinga. Kvennaæfingar eru öll þriðjudagskvöld frá kl. 20:00 til kl. 21:00 frá 14. febrúar nk. til og með 27. mars nk.

Pútt keppni verður á þessum tíma. Keppnin verður á þann veg að hver og ein kona getur púttað þrisvar á æfingatímanum á þriðjudagskvöldum og besti tíminn skal skráður á sérstakt merkt blað. Sú sem er með fæst högg af fimm kvöldum er pútt meistari vetrarins.

Sigmundur Einar Másson, afrekskylfingur í GKG, mun koma þriðjudagskvöldin 14. febrúar, 21. febrúar og 28. febrúar nk. frá kl. 19:30 til kl. 20:00 og sýna okkur leikfimiæfingar sem munu auðvelda okkur sveifluna í sumar.

Rósa Margrét Sigursteinsdóttir, golfdómari, mun fara yfir golfreglur laugardaginn 25. febrúar nk. frá kl. 10:00 til 12:00 og framhaldsreglufundur laugardaginn 10. mars nk. frá kl. 10:00 til kl. 12:00. Reglufundirnir verða í golfskálanum.

Hlynur Þór Haraldsson, PGA golfkennari, mun verða með golfnámskeið fyrir konur í Kórnum líkt og í fyrra. Námskeiðin verða annan hvern sunnudag í þrjú skipti, fyrra námskeiðið frá kl. 15:00 til kl. 16:30 og síðara frá kl. 16:30 til kl. 18:00. Á hverju námskeiði verða að hámarki 8 konur og kostar námskeiðið, þ.e. þrisvar x 1,5 klst. kr. 5.000. Námskeiðin hefjast sunnudaginn 19. febrúar nk. og verða einnig sunnudaginn 4. mars og sunnudaginn 18. mars nk. Þær konur sem hafa áhuga á golfnámskeiðunum hafa samband við Hlyn Þór með því að senda honum tölvupóst hlynur@gkg.is“>hlynur@gkg.is eða í síma 866-7565.

Ný kvennanefnd hefur tekið til starfa. Í nefndinni eru allar þær sömu og voru í fyrra auk þess sem að Rósa Margrét hefur bæst í hópinn.

Rauðvínskvöldið er áætlað 11. maí nk.

Golfkveðjur

Kvennanefndin