Úrslitaleikurinn í Holukeppninni var leikinn sunnudaginn 16. september, þegar þeir Gísli Geir Gylfason og Sigurfinnur Sigurjónsson léku um titilinn Holumeistari GKG 2012.
Á myndinni eru þeir Gísli Geir (t.v.) og Sigurfinnur rétt áður en leikur hófst og á milli þeirra stendur holumeistari klúbbsins 2011, Gunnlaugur Sigurðsson, sem afhenti þeim félögum teiggjöf og lagði þeim lífsreglurnar, áður en alvaran byrjaði.
Úrslitaleikurinn var að þessu sinni heldur ójafn, því Gísli Geir átti slæman dag og var ekki „á boltanum“ eins og sagt er. Sigurfinnur lék hins vegar við hvurn sinn fingur. Fór svo að leiknum lauk strax á 12. braut með sigri Sigurfinns, sem var 8 yfir þegar 6 holur voru eftir.
Óhætt er að segja að holukeppni GKG, sem var var endurvakin í fyrra eftir nokkurt hlé að frumkvæði trjáræktarnefndar, njóti nú vaxandi vinsælda í klúbbnum. Þannig tók í ár 71 félagi þátt í úrtökumótinu, en í fyrra reyndu 63 félagar að ná einu af þeim 32 sætum, sem veita rétt til þess að taka þátt í holukeppninni.
Reynslan hefur sýnt að holukeppnin er fyrst og frems fyrir hinn almenna kylfing á öllum aldri, bæði konur og karla. Svo skemmtilega vildi til að yngsti þátttakandinn, 12 ára drengur, dróst á móti elsta keppandanum, 73 ára karli, strax í fyrstu umferð. Ekki þarf að spyrja að leikslokum: guttinn tók þann gamla í nefið og vann 4/2!