Aðalfundur GKG var haldinn í Íþróttamiðstöðinni í gær fimmtudaginn 4. desember. Jón Júlíusson formaður flutti hluta af skýrslu stjórnar en einnig undir sama lið kom starfsfólk og formenn nefnda og fluttu sinn hluta skýrslunnar.
Fundarstjóri, líkt og mörg undanfarin ár, var Tómas Jónsson, sem stýrði fundinum af festu og fagmennsku. Sigmundur Einar Másson sá um að streyma fundinum í gegnum fésbókarsíðu GKG. Hægt er að horfa á útsendinguna hér.
Haukur Már Ólafsson starfandi íþróttastjóri GKG kynnti starfsemi íþróttasviðs og fór yfir fjölda og árangur þeirra, sem æfðu og kepptu á vegum félagsins. Mikil sprengja er í fjölda þeirra iðkenda sem vilja stunda golf. Það er mjög jákvætt en jafnframt krefjandi þar sem aðstaða og fjöldi kennara er við þolmörk.
Einar Þorsteinsson formaður vallarnefndar fór yfir framkvæmdir á síðasta starfsári, en s.l. golftímabil er það lengsta til þessa, frá 30. apríl til seinniparts október. Vellir hafa sjaldan verið betri og voru rómaðir af kylfingum fyrir gott ásigkomulag og snyrtimennsku.
Kate Stillwell vallarstjóri fór yfir helstu verkefni sín í sumar. Þau helstu voru að stýra næringu grass á flötum og nýtt vökvunarkerfi. Klúbburinn náði nýlega þýðingarmiklum áfanga í starfi sínu með GEO Certified-sjálfbærnivottun.
Úlfar Jónsson þjónustustjóri fór yfir þjónustu við GKG félaga, s.s. mótahald, fyrirlestra í boði, golfnámskeið ofl.
Agnar Már Jónsson framkvæmdastjóri kynnti ársreikning síðasta starfsárs. Rekstrarhagnaður ársins var tæpar 57mkr. Í dag eru 950 manns á biðlista í GKG. Endurskoðaðir reikningar voru samþykktir samhljóða.
Fjárhagsáætlun klúbbsins var kynnt og árgjöld samþykkt af félagsmönnum og verða félagsgjöld í GKG þessi á komandi ári (aldur er miðaður við fæðingarár):
Félagsmenn 70 ára og eldri, kr. 140.800
Félagsmenn 26-69 ára, kr. 175.000
Félagsmenn 19-25 ára, kr. 92.500
Félagsmenn 77 ára og eldri*, kr. 92.500
*Enda hafi félagi verið í GKG í a.m.k. 10 ár samfellt.
Nýjir félagar 26 ára og eldri, greiða kr. 45.000 í inntökugjald þegar gengið er í klúbbinn
Jón Júlíusson var sjálfkrafa endurkjörinn formaður og hefur nú sitt fjórða ár sem formaður GKG.
Berglind Jónasdóttir gaf ekki kost á sér áfram í stjórn GKG, en hún hefur stýrt kvennanefndinni með myndarskap undanfarin ár. Berglindi var þakkað fyrir góð störf með lófataki.
Fjögur framboð til stjórnar bárust innan tilskilins frests fyrir aðalfundinn. Sjálfkjörið er því í stjórn. Í framboði voru:
-
-
- Birgir Leifur Hafþórsson, stjórnarmaður í GKG
- Hulda Ólafsdóttir Klein, formaður kvennanefndar GKG. Kemur ný inn í stjórn.
- Sigríður Olgeirsdóttir, stjórnarmaður í GKG
- Sigurður Kristinn Egilsson, stjórnarmaður í GKG
-
Undir liðnum önnur mál kynnti Úlfar þann unga kylfing sem hlýtur Háttvísibikarinn í ár, en það er Gunnar Þór Heimisson, sem er vel að þessari viðurkenningu kominn. Jón formaður afhenti honum bikarinn. Sjá nánar hér.
Að lokum kynnti Leifur Geir Hafsteinsson niðurstöður viðhorfskannana sem teknar voru í vor, sumar og haust.
Glærur sem kynntar voru á fundinum er hægt að sjá hér.
Ársrit GKG 2025, sem inniheldur ársreikning er hægt að lesa hér.
Stjórn og starfsfólk þakkar félagsmönnum fyrir afar gott starfsár.