Aðalfundur GKG var haldinn í Íþróttamiðstöð GKG fimmtudaginn 29. nóvember.
Jón Júlíusson fyrrum íþrótta- og tómstundafulltrúi Kópavogsbæjar var kosinn nýr formaður klúbbsins og tekur við keflinu af Guðmundi Oddssyni sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Guðmundur lætur því af formennsku eftir 15 ár samtals sem formaður GKG. Hann var leystur út með Gullmerki GKG og dynjandi lófaklappi.
Bergþóra Sigmundsdóttir var sæmd Gullmerki GKG fyrir óeigingjarnt starf í þágu GKG og golfhreyfingarinnar, en Bergþóra var 10 ár í stjórn GKG og sat jafnframt í stjórn GSÍ. Bergþóra er ein af þeim konum sem eiga heiðurinn af því öfluga kvennastarfi sem rekið er í klúbbinum.
Tveir aðilar gáfu kost á sér í laus sæti í stjórn. Sigurjón Sigurjónsson og Einar Þorsteinsson koma nýir inn í stjórn GKG. Fráfarandi stjórnamenn eru þau Ingibjörg Þ. Ólafsdóttir og Tinni Jóhannsson sem gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og er þeim þakkað fyrir óeigingjarnt starf í þágu klúbbsins. Stjórn GKG árið 2023 er skipuð ásamt Sigurjóni og Einari þau Ásta Kristín Valgarðsdóttir, Ragnheiður Stephensen, Berglind Stefanía Jónasdóttir, Einar Gunnar Guðmundsson Sigurður K. Egilsson og Sigmundur Einar Másson.
Að venju var háttvísisbikar GSÍ veittur þeim unga kylfingi sem þykir hafa skarað fram úr á árinu hvað varðar árangur og framfarir, ástundun, metnað til að ná langt, félagsanda og ekki síst fyrirmynd annarra félagsmanna, ungra sem aldna hvað varðar háttvísi innan vallar sem utan. Háttvísisbikarinn 2022 hlaut Katrín Hörn Daníelsdóttir.
Rekstur klúbbsins var ásættanlegur og skilaði rúmum 24 milljónum í hagnað, hluti af hagnaðinum er til kominn vegna söluhagnaðar á fastafjármunum eða tæpar sex milljónir króna.
Hægt er að skoða ársskýrslu klúbbsins fyrir árið 2022 hér.
Fundurinn var sýndur beint á facebook. Hægt er að horfa á upptökuna hér.

Jón Júl ásamt Helgu eiginkonu sinni hægra megin á mynd og hjónunum Kollý og Hilmari í félagsferð GKG á Islantilla s.l. haust