Meginmarkmið æfingaferða GKG er að auka leikform þátttakenda og láta reyna á þær tæknilegu breytingar sem unnið hefur verið í yfir veturinn. Vetraræfingatímabilið er mjög langt og því er mikilvægt fyrir krakkana að hafa ferð sem þessa til að stefna að, en mikil tilhlökkun var sem jókst jafnt og þétt. Einnig er ferð sem þessi mjög mikilvæg félagslega og kynnast krakkarnir betur og bætir það liðsheildina.
Að þessu sinni fórum við til Novo Sancti Petri golfsvæðisins, sem er nálægt Cadiz á Spáni. Aðstæður til golfleiks og æfinga þar eru frábærar, þrír krefjandi en skemmtilegir golfvellir, hannaðir af Seve Ballesteros, svo og góð aðstaða til að æfa vipp og pútt. Æfingaaðstaða fyrir löng högg var ágæt, en þó þurftum við að slá af mottum, sem var miður. Það kom þó ekki ýkja mikið að sök þar sem megináherslan var á spil og að æfa stutta spilið. Veðrið var gott mestallan tímann, um 20° hiti, en þó blés duglega 3 af 7 leikdögunum.
Í grófum dráttum var æfingaáætlunin á þessa leið: Vaknað snemma og blóðrásinni komið í gang með 10-15 mín skokki og teygjum á eftir. Að loknum morgunmat var æfing og síðan golf, eða öfugt. Allir þátttakendur þurftu að skila inn tölfræðiblöðum eftir hvern hring og skrifa stutta lýsingu á því sem var gott og það sem mátti fara betur. Eftir hringinn var oftast æfing, annaðhvort 2-3 klukkutímar ef leikið var snemma, eða um 1 klukkutími og þó fyrst og fremst hugsað um að vinna í þeim hlutum sem betur máttu fara á hringnum á undan. Þjálfarar gættu þess að æfingar stutta spilsins fengu veglegan sess á æfingunum, enda er það sá hluti leiksins sem sker oftast úr um árangurinn. „Vinnudagurinn” var 10-12 tímar og því reyndi þetta á úthaldið, en aldrei nokkurn tímann var kvartað yfir of miklu álagi, og er lofsvert hvað þessi hópur, eins og fyrri æfingahópar frá GKG, er jákvæður og skemmtilegur.
Að loknum kvöldmat var stuttur fundur til að fara yfir daginn og kynna skipulag næsta dags. Að því loknu var frjáls tími en ýmislegt skemmtilegt var hægt að gera sér til dægrastyttinga á hótelinu. Masters golfmótið fór fram á meðan ferðinni stóð og var það sýnt á stórum skjá í samkomusal hótelsins. Nýttu margir sér það að horfa og læra af bestu kylfingum heims, allt þar til augnlokin fóru að þyngjast verulega.
Seinustu tvo dagana héltu við síðan „GKG Spanish Open” og voru veitt verðlaun fyrir besta skor án forgjafar og hæsta punktafjölda með forgjöf. Sigurvegarar voru Emil Þór Ragnarsson á 160 höggum, en Egill Ragnar Gunnarsson sigraði í punktakeppninni með 76 punkta. Fengu þau minjagripi í verðlaun merkt Novo Sancti Petri.
Að lokum vil ég þakka krökkunum fyrir einstaklega góða og skemmtileg ferð, sem og foreldrunum sem fylgdu okkur. Það er mikill fengur fyrir GKG að eiga jafn samstilltan og skemmtilegan hóp, sem eru sér og sínum til mikils sóma innan vallar sem utan. Einnig vil ég þakka Derrick fyrir sinn hlut í ferðinni og í mínum huga er enginn vafi á því að þar er fremsti þjálfari landsins á ferðinni.
Áfram GKG!
Úlfar Jónsson
Íþróttastjóri GKG