ballena_storÞjálfarar GKG, Derrick Moore og Haraldur Þórðarson, auk undirritaðs sáu um að framfylgja æfingaskipulaginu og þjálfun hópsins. Einnig voru til halds og trausts foreldrar og aðstandendur nokkurra kylfinga og hjálpaði það á tíðum mikið. Gunnar Jónsson, form. unglinganefndar, passaði upp á allir fengju nóg af vatni og ávöxtum meðan á leik stóð og fær hann miklar þakkir fyrir.

Aðstæður til æfinga og leiks eru mjög góðar á Costa Ballena og vorum við vel kunnug því svæði enda fór GKG í æfingaferð á sama stað í fyrra. Á Costa Ballena eru 27 holur, auk 9 holu par 3 vallar. Einnig er þar mjög gott æfingasvæði og frábær aðstaða til að æfa högg innan við 80 metra. Ágætis æfingaflöt er á staðnum en þar gat þó verið nokkuð þröngt um manninn, en Keilir var einnig með stóran hóp kylfinga á sama tíma. Að auki var finnska kvenna- og karlalandsliðið á staðnum. Ekki sakaði að veðrið var frábært allan tímann, 18-20° hiti, en nægur vindur til að undirbúa alla fyrir íslenskt golfsumar.

ballena_yfirlitMegin tilgangur svona æfingaferða er margþættur, en þó fyrst og fremst að auka leikform kylfinganna fyrir komandi keppnistímabil eftir æfingar mestmegnis innahús í vetur; að geta æft og leikið við góðar aðstæður í umhverfi þar sem golf er í fyrirrúmi, og ekki síst að efla liðsandann.

Æfingaskipulagið var á þann hátt að dagarnir hófust með léttu skokki og teygjum, og stjórnaði Haraldur öllu sem varðaði líkamlega þáttinn, enda íþróttakennari að mennt. Síðan var æfing nær alla daga í 2-3 tíma og spilaðar 18 holur. Undantekning frá þessu var á 6. degi en þá var hvíldardagur, þ.e. einungis voru leiknar 9 holur á par 3 vellinum, en síðan var frí frá golfi eftir hádegi, enda var slíkt nauðsynlegt þar sem dagarnir gátu orðið býsna langir, en frá líkamsæfingunum á morgnana og til loka æfingar eða leiks um kvöldið liðu oftast um 10-11 klukkutímar. Kylfingarnir þurftu að skila ýtarlegri tölfræði eftir hvern hring Fundir voru á hverju kvöldi til að fara yfir árangur dagsins og til að fara yfir skipulag næsta dags. Einnig var fjallað um ýmis efni sem kylfingar þurfa að hafa í huga til að bæta árangurinn, s.s. hugarfar, leikskipulag og m.fl. Leiknar voru 36 holur seinasta daginn og þá með Ryder/Solheim Cup fyrirkomulagi, s.s. fjórmenningur fyrir hádegi og tvímenningur eftir hádegi. Hópnum var skipt í tvö lið og endaði keppnin með jafntefli.

Í lok ferðar voru veitt verðlaun þeim kylfingum pilta og stúlkna sem þóttu sína bestan árangur og framfarir. Ingunn og Starkaður fengu verðlaun fyrir besta heildarárangurinn og Lovísa og Jón Sævar fengu verðlaun fyrir mestu framfarir. Óhætt er að segja að æfingar vetrarins hafi skilað miklu því sýnt þótti að allir hefðu bætt sig frá því á seinasta ári.

Að lokum vil ég geta þess að hópurinn fékk mikið lof frá forsvarsmanni Costa Ballena sem hafði aldrei séð jafn mikinn fyrirmyndarhóp á svæðinu og er svo sannarlega hægt að taka undir það því krakkarnir voru sjálfum sér og klúbbnum til mikils sóma í ferðinni.

Með golfkveðju,
Úlfar Jónsson
Íþróttastjóri GKG