Alfreð Brynjar Kristinsson, nýjasti afrekskylfingur GKG, stóð sig vel á háskólamótinu Mars Hill College Invitational í Bandaríkjunum sem fram fór fyrir rúmri viku. Alfreð lék við erfiðar aðstæður, en skera varð mótið niður í eina 18 holu umferð sökum illviðris. Hringurinn var leikinn í vindasömu veðri og var völlurinn mjög blautur. Íslendingurinn Alfreð er að sjálfsögðu öllu vanur þegar að veðri og vindum kemur og lék því fínt golf, endaði á 73 höggum sem skiluðu honum í fjórða sæti. Flottur árangur það.
Alfreð er nýgenginn til liðs við GKG en hann var áður í GR. Hann er á sínu síðasta námsári við St. Andrews Presbyterian College og kemur heim í sumar og spilar fyrir hönd GKG. Er hann frábær viðbót við afrekshóp GKG og verður gaman að fylgjast með honum á vellinum í sumar.