Í gær lauk Íslandsmóti unglinga í holukeppni, en leikið var í Borgarnesi. Veðrið setti svip sinn á keppnina en aðstæður voru mjög erfiðar fyrir keppendur, þó vallarstarfsmenn kætist eflaust yfir langþráðri vætu.

Yfir 20 keppendur voru frá GKG og var leikinn 18 holu höggleikur fyrsta daginn til að skera úr um hverjir kæmust í holukeppnina. Árangur keppenda er hægt að sjá hér, en besta árangri GKG kylfinga náðu Aron Snær Júlíusson, sem tapaði í úrslitaleik í flokki 15-16 ára fyrir Kristni Rey Sigurðssyni úr GR, 2/0. Aron hreppti því 2. sætið að þessu sinni, en hann hafði sigrað í seinustu tveimur mótum þar á undan, sem er frábær árangur.

Særós Óskarsdóttir lagði Hönnu Maríu Jónsdóttur á 19. holu í keppninni um 3. sætið í flokki 15-16 ára stúlkna. Særós hefur staðið sig mjög vel í sumar og þetta er í annað sinn sem hún hafnar í 3. sæti í sínum flokki.

Í flokki 14 ára og yngri náði Kristófer Orri Þórðarson bestum árangri, 4. sæti, en hann tapaði fyrir Theodór Inga Gíslasyni í leik um 3. sætið.

Næsta mót í Arionbankamótaröðinni er Íslandsmótið í höggleik, en það fer fram í Grafarholti dagana 6.-8. ágúst.