Hugleiðingar varðandi félagsgjöld og innheimtur
Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar varð til við sameiningu Golfklúbbs Kópavogs og Golfklúbbs Garðabæjar árið 1994. Á árunum sem á eftir fylgdu var unnið gríðarlega mikið og fórnfúst starf við það að halda GKG á lífi og allt kapp lagt á að auka tekjur til að standa straum af kostnaði við ört vaxandi klúbb og auknar kröfur um gæði og aðgengi. Þetta hefur oft á tíðum orðið til þess að ekki hefur verið framkvæmanlegt að halda að sér höndum varðandi útgjöld á móti. Mikið hefur verið um nýframkvæmdir og uppbyggingu sem hefur gert það að verkum að klúbburinn hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár og er nú svo komið að GKG er annar stærsti golfklúbbur á Íslandi og leiðandi á ýmsum sviðum golfsins og má þar sérstaklega taka fyrir unglinga og barnastarf svo og aðgengi nýliða í íþróttina.