Þriðja árið í röð fóru afreksunglingar í GKG í æfingaferð til útlanda, nú dagana 23. mars til 1. apríl. Má því fara að tala um árvissa ferð, en ferðin fyrir tveimur árum var fyrsta ferð afreksunglinganna utan. Sem nærri má geta er þetta frábær viðbót við afreksstarf unglinganna og þeim mikil hvatning.
Unglingahópurinn var skipaður 16 krökkum, 8 af hvoru kyni á 13. til 18. ári. Þá voru með tveir kylfingar úr afrekshópi karla, þótt hvorugur teljist við aldur. Kylfingunum til halds og trausts voru síðan þjálfarar klúbbsins Derrick Moore og Haraldur Þórðarson undir öruggri forystu íþróttastjórans Úlfars Jónssonar.
Frá fyrstu ferð var sú stefna tekin að bjóða aðstandendur kylfinganna velkomna með, undir því fororði að þau skiptu sér ekki minnsta grand af golfiðkan krakkanna. Þetta hefur lánast afar vel. Aðstandendur í þessari ferð voru liðlega 20.