Bændaglíma GKG fór fram síðastliðinn laugardag á Vífilsstaðavelli. Mótið er, líkt og hjá mörgum öðrum klúbbum, lokahóf félagsmanna og var helgin því síðasti möguleiki til þess að spila Vífilsstaðavöllinn þetta sumarið.

Hátt í 50 manns mættu og skiptu bændurnir þeim systurlega á milli sín. Þetta árið voru kjarnakonurnar Jónína Pálsdóttir og Hansína Þorkelsdóttir í hlutverki bænda og eru þær stöllur vel að þeim titlum komnar, enda alþekkt þeirra hreysti og dugur þegar að golfinu kemur. Eftir að bændurnir blésu baráttuanda í sveitunga sína þá hélt fríður hópurinn út á völl og spilaðu scramble og gerði sitt besta til þess að safna punktum fyrir sinn bónda (eða bóndínu eins og einhver sagði). Keppnin var gífurlega hörð og stóð ansi tæpt en að lokum fór að Hansína og hennar sveitungar höfðu sigur með aðeins tveimur punktum. Var sigursveitinni og bóndanum klappað lof í lófa að móti loknu.

Eftir að golfinu lauk héldu kylfingar galvaskir í lokahóf GKG, en boðið var upp á dýrindis grillmat í golfskálanum. Veitt voru verðlaun fyrir Miðvikudagsmótaröðina í sumar sem og hylling sigurbóndans fór fram. Markaði hófið lok vertíðarinnar hjá GKG í sumar.

Stjórn GKG og starfsmenn vilja þakka fyrir sig þetta árið og hlakka til að sjá alla kylfingana aftur á vormánuðum!