Það er óhætt að segja að veðurguðirnir hafi verið í liði með okkur þegar við opnuðum vellina okkar með opnunarmóti GKG. Það var vertinn okkar hann Vignir Hlöðversson sem sló fyrsta höggið en 125 kylfingar tóku þátt í mótinu. Segja má að mótið hafi einkennst af afrakstri vetrarstarfs barna- og unglinga því mótið vannst á verulega góðu skori og krakkarnir unnu öll verðlaunin.

Til að byrja með tók Ragnar Áki Ragnarsson, 18 ára, nándarverðlaunin á 17. holu en hann setti hann 3,21 frá holu.

Í punktakeppninni voru fjórir kylfingar jafnir með 38 punkta í þriðja sæti. María Björk Ólafsdóttir, 15 ára, var best á síðustu 6 holunum og hreppti með þeim hætti bronsið. Í öðru sæti á 43 punktum var Daníel F. Guðmundsson Roldos, 14 ára. Í fyrsta sæti, á ótrúlegu skori, var hún Anna Júlía Ólafsdóttir, 16 ára,  á 50 punktum! Allir þessir krakkar eru búnir að vera iðnir við kolann í vetur og má með sanni segja að þarna sé ný og bætt vetraraðstaða að skila sér með þessum frábæra árangri krakkanna.

Margmenni mætti í verðlaunaafhendinguna og skapaðist góð stemning í veitingasalnum þar sem húsband GKG, Hrafnarnir spiluðu nokkra slagara. Það var svo „öldungurinn“  hann Atli Ágústsson sem hækkaði meðalaldur verðlaunahafa um örfá ár þegar hann var dreginn út úr skorkortum og hlaut Evrópuferð með Icelandair í verðlaun.