Birgir Leifur Hafþórsson, úr GKG, er úr leik á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina í golfi. Hann lék fjórða hringinn á -2 eða 68 höggum en það dugði ekki til og endaði hann á +3 samtals (74-72-73-68). Þeir kylfingar sem náðu að vera í einu af 70 efstu sætunum leika tvo hringi til viðbótar og að þeim loknum fá 25 efstu keppnisrétt á Evrópumótaröðinni. Birgir endaði í 106. sæti af alls 156 kylfingum sem komust inn á lokaúrtökumótið á PGA Catalunya á Spáni.

„Fyrsti keppnisdagurinn fór alveg með möguleika mína. Ég púttaði 40 sinnum, var með 5 þrípútt og sjálfstraustið var ekki mikið. Ég gaf aldrei upp og fann taktinn aftur í púttunum, en ég náði ekki að nýta þau færi sem ég kom mér í,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson við golf.is eftir að hann féll úr leik á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina á Spáni.

Birgir Leifur barðist hetjulega og við félagar hans í GKG erum virkilega stolt af hans árangri og hans framgöngu mörg undanfarin ár.

 Lokastaðan