Birgir Leifur Haþórsson, atvinnukylfingur GKG, virðist alls ekki kunna vel við sig á Leopard Creek golfvellinum í Suður-Afríku. Hann hóf leik þar í dag á Alfred Dunhill mótinu en leikar fóru ekki betur en svo að okkar maður spilaði á 79 höggum, eða sjö höggum yfir pari.

Birgir tók þátt í þessu móti í fyrra og spilaði þá líka afar illa, á 77 og 75 höggum og komst ekki í gegnum niðurskurðinn þá. Ekki er útlit fyrir að það breytist í ár, en okkar maður er í 130. sæti af 156 þegar þetta er skrifað.

Vonandi gengur Birgi betur á morgun og láti ekki þetta bakslag á sig fá, þetta er aðeins fyrsta mótið af fjölmörgum og því um að gera að stappa í sig stálinu og koma sterkur inn á næsta móti. Fall er fararheill!