Atvinnukylfingurinn okkar í GKG, Birgir Leifur Hafþórsson verður með á Evrópumótaröðinni í golfi um helgina þegar Porsche European Open mótið hefst í Þýskalandi. Birgir Leifur verður eini atvinnukylfingurinn í karlaflokki sem ekki verður með á Íslandsmótinu í Vestmannaeyjum.

Nokkrir af sterkustu kylfingum heims verða á meðal keppenda á Porsche European en þar má meðal annars nefna þá Patrick Reed og Paul Casey. 

Birgir Leifur hefur leik á morgun klukkan tíu mínútur yfir tvö að staðartíma.

Íslandsmótið í golfi hefst í Vestmannaeyjum á morgun. Þar á Axel Bóasson titil að verja í karlaflokki og mætir hann til leiks ásamt þeim Haraldi Franklín Magnús, Andra Þór Björnssyni, Guðmundi Ágústi Kristjánssyni og Ólafi Loftssyni. 

Valdís Þóra Jónsdóttir á titil að verja í kvennaflokki en hún verður fjarri góðu gamni vegna þátttöku sinnar á Opna skoska meistaramótinu sem hefst á morgun. Þar verður Ólafía Þórunn Kristinsdóttir einnig á meðal keppenda.