Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR fögnuðu sigri á Íslandsmótinu í golfi á Eimskipsmótaröðinni 2016. Mótinu lauk í dag á Jaðarsvelli á Akureyri og var þetta í 75. sinn sem keppt er í karlaflokki og 50. sinn í kvennaflokki. Mikill fjöldi áhorfenda var á Jaðarsvelli á lokahringnum og nýttu sér frábæra þjónustu GA þar sem þráðlaust netsamband var á vellinu og gátu áhorfendur fylgst með beinni útsendingu á RÚV og lifandi skori á golf.is þegar spennan náði hámarki.

Birgir Leifur bætti met með því að sigra í sjöunda sinn og Ólafía Þórunn setti mótsmet með því að leika á -11 samtals. Þetta er þriðji titill Ólafíu frá upphafi en hún sigraði 2011 á Hólmsvelli í Leiru, 2014 á Leirdalsvelli og 2016 á Jaðarsvelli á Akureyri.

Keppni í karla og kvennaflokki var gríðarlega spennandi. Birgir setti niður pútt á 17. flöt fyrir fugli og kom sér í -8 á lokahringnum sem hann lék á 66 höggum eða -5. Sannarlega glæsilegur lokahringur og var Birgir Leifur einu höggi frá því að jafna vallarmetið sem Bjarki Pétursson úr GB setti á þriðja keppnisdeginum. Birgir Leifur var í þriðja síðasta ráshóp í karlaflokknum og sýndi mikinn styrk þegar mest á reyndi.  Hann fékk fjóra fugla á síðari 9 holunum og náði smátt og smátt að koma sér í kjörstöðu fyrir lokaholuna.

Axel Bóasson úr GK og Bjarki Pétursson úr GB fengu báðir tækifæri til þess að jafna við Birgi Leif þegar þeir léku tvær síðustu holurnar. Bjarki var hársbreidd frá því að fá fugl á 18. braut sem hefði tryggt umspil gegn Birgi um Íslandsmeistaratitilinn. Axel hafði síðan betur gegn Bjarkai á annarri holu í bráðabana um annað sætið. Bjarki lék allar 18 holurnar á lokahringnum á pari og er það án efa einstakt. Axel Bóasson var ansi nálægt því að fá fugl á 17. holuna og spennan var gríðarleg á lokahringnum.

Alls léku 12 kylfingar í karlaflokki undir pari vallar samtals og er þetta í fyrsta sinn í sögunni sem það gerist.

1. Birgir Leifur Hafþórsson, GKG (69-70-71-66) 276 högg -8
2. Axel Bóasson, GK (71-67-69-70) 277 högg -7
3. Bjarki Pétursson, GB (72-69-65-71) 277 högg -7

„Þetta var mjög góður dagur hjá mér og ég hitti nánast allar flatir og var í fullt af færum. Ég náði ekki að nýta mér það fyrr en á seinni níu holunum. Það var gríðarlega góð tilfinning að sjá púttið á 17. flötinni fyrir fuglinum fara ofaní og þá vissi ég að ég ætti góða möguleika á sigri.  Þetta var ljúft og þetta mót var frábært, gríðarlega gaman að standa uppi sem sigurvegari eftir svona harða keppni. Breiddin er alltaf að aukast og það er frábært fyrir golfíþróttina á Íslandi að sjá hversu margir eru að skila inn góðum skorum á þessu móti,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson eftir hringinn í dag.

Frábært fyrir golfíþróttina á Íslandi að sjá hversu margir eru að skila inn góðum skorum á þessu móti.

Axel Bóasson púttar hér á 17. flöt fyrir fugli á lokahringnum. Mynd/seth@golf.is
Axel Bóasson púttar hér á 17. flöt fyrir fugli á lokahringnum. Mynd/seth@golf.is

 

Bjarki Pétursson, GB, slær hér á 1. teig á Jaðarsvelli. Mynd/seth@golf.is
Bjarki Pétursson, GB, slær hér á 1. teig á Jaðarsvelli. Mynd/seth@golf.is

Magnaði mótsmet hjá Ólafíu Þórunni – jafnaði vallarmetið á lokahringnum 

Ólafía Þórunn lagði grunninn að sigrinum með mögnuðum kafla á fyrri 9 holunum þar sem hún fékk fimm fugla á sex holum og þar af fjóra í röð á 2., 3., 4., og 5. braut. Ólafía tapaði aðeins einu höggi á hringnum og lék á 66 höggum eða -5. Hún jafnaði þar með vallarmetið sem Valdís Þóra Jónsdóttir hafði sett á þriðja keppnisdeginum. Valdís fékk fugl á lokaholunni og minnkaði forskotið í tvö högg en það dugði ekki til og Ólafía fagnaði sigri á -11 samtals en Valdís Þóra var á -9 samtals. Þetta er í fyrsta sinn sem skor kvenna er betra en í karlaflokki og setti Ólafía nýtt mótsmet hvað varðar fjölda högga en fyrra metið var sett í fyrra þegar Signý Arnórsdóttir lék á +1 á Garðavelli á Akranesi.

1. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir , GR (70-68-69-66) 273 högg -11
2. Valdís Þóra Jónsdóttir, GL (71-69-66-69) 275 högg -9
3. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK (72-72-73-72) 289 högg +5

„Þetta var frábær dagur og þetta var eins og holukeppni á milli okka Valdísar . Pútterinn hjá mér var aðeins „heitari“ og það gerði útslagið. Ég náði frábærum kafla á fyrri 9 holunum þar sem mér leið vel á flötunum og mér fannst eins og öll pútt færu ofaní. Fjórir fuglar í röð og það breytti miklu. Það var frábært fyrir kvennagolfið að fá svona skor og harða keppni. Ég held að við séum búnar að taka miklum framförum og þetta var bara frábær sýning fyrir kvennagolfið á Íslandi. Þetta er besta skor hjá mér í keppni og ég er gríðarlega ánægð með þetta allt saman,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR.

Það var frábært fyrir kvennagolfið að fá svona skor og harða keppni.

Birgir Leifur deildi metinu yfir fjölda titla með Úlfari Jónssyni og Björgvini Þorsteinssyni en þeir höfðu allir sigrað sex sinnum. Birgir Leifur á nú einn metið yfir fjölda titla en hann hefur sigrað alls sjö sinnum. Hann sigraði í fyrsta sinn árið 1996 þegar hann keppti fyrir Golfklúbbinn Leyni,  hann hefur sex sinnum sigrað sem félagi í GKG, 2003, 2004, 2010, 2013, 2014 og 2016. Þetta er sjöundi Íslandsmeistaratitill GKG frá upphafi í karlaflokki en Sigmundur Einar Másson varð Íslandsmeistari árið 2006.

Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, slær hér á 15. teig á lokahringnum á Jaðarsvelli. Mynd/seth@golf.is
Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, slær hér á 15. teig á lokahringnum á Jaðarsvelli. Mynd/seth@golf.is

Lokastaðan:

Byggt á frétt á golf.is