Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur, hóf leik í dag á Valderama Masters mótinu sem er leikið á hinum fræga Valderama velli í Sotogrande á Spáni. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni og verndari mótsins er Sergio Garcia.

Þetta er stór stund fyrir Birgi Leif því eitt af hans markmiðum var að leika á þessum velli í móti á Evrópumótaröðinni. Á þessum velli hafa mörg sterk mót verið haldin, m.a. Ryder keppnin 1997 þegar hinn goðsagnakenndi Severiano Ballesteros stýrði Evrópumönnum til sigurs gegn bandaríska liðinu.

Á fésbókarsíðu sinni sagði Birgir Leifur að “fyrir 20 árum setti ég mér það markmið að spila ekki einn allra flottasta völl sem ég hef komið á Real club Valderama fyrr en ég kæmist inn í mót a European tour á þeim velli, það er að rætast á morgun ??”

Við óskum Birgi Leifi góðs gengis og vonum að fuglarnir verði margir á skorkortinu hans!

Birgir Leifur fer af stað í dag kl. 14:25 á íslenskum tíma. Hægt er að fylgjast með stöðunni hér.

 

Myndir: Birgir Leifur