Birgir Leifur Hafþórsson, kylfingur í GKG, var valinn íþróttakarl Garðabæjar í þriðja sinn, en kjörinu var lýst s.l. sunnudag. Hanna Rún Ólafsdóttir, dansari var valin íþróttakona Garðabæjar, en þetta er í fyrsta sinn sem valinn er einn karl og ein kona sem íþróttamenn ársins hjá Garðabæ. Birgir Leifur var einnig íþróttamaður Garðabæjar árin 2003 og 2004. Eftirfarandi listi sýnir yfirlit yfir helsta árangur Birgis á nýliðnu keppnistímabili, en hann sigraði á öllum einstaklingsmótum á Íslandi, sem hann tók þátt í á tímabilinu: • 1. sæti Íslandsmót í höggleik sem haldið var hjá Golfklúbbi Kiðjabergs. • 1. sæti Íslandsmót í holukeppni sem haldið var hjá Golfklúbbi Leynis á Akranesi. • 1. sæti Meistaramót GKG. • 3. sæti Íslandsmót í sveitakeppni GSÍ hjá Golfklúbbnum Keili. • Vann alla sína leiki (5) í Sveitakeppni GSÍ með sveit GKG. • Lék á 58 höggum í sumar, 14 undir pari, á Akranesi, sem er árangur á heimsmælikvarða, en fáir kylfingar í heiminum hafa náð viðlíkum árangri. • 52. sæti á Austrian Open mótinu sem er hluti af evrópsku mótaröðinni. • 2. sæti á öðru stigi úrtökumóts fyrir evrópsku mótaröðina (Qualifying school). • Tryggði sér þátttökurétt á evrópsku áskorendamótaröðina (Challenge Tour). „Birgir Leifur hefur glímt við meiðsli undanfarin ár og leit út fyrir að ferill hans væri á enda. Með góðri endurhæfingu og réttu hugarfari, náði Birgir Leifur góðum bata sem gerði honum kleift að leika áfram keppnisgolf. Hann þykir frábær fyrirmynd annarra yngri sem eldri kylfinga, er reglusamur, vinnusamur og jákvæður. Hann er frábær liðsmaður, hvetjandi og drífandi. Birgir Leifur hefur starfað hjá GKG sem leiðbeinandi barna og unglinga, og hefur verið mjög vinsæll meðal nemenda sinna. Birgir Leifur stefnir á að endurheimta þátttökurétt sinn á Evrópumótaröðinni,“ segir á heimasíðu Garðabæjar um útnefningu Birgis.