Ákveðið hefur verið að breyta fyrirkomulagi æfinga barna og unglinga frá því sem verið hefur undanfarin sumar. Breytingunum er ætlað að leyfa öllum félagsmönnum fæddum á árunum ´89-´99 að njóta leiðsagnar þjálfara GKG, Úlfars Jónssonar, Derricks Moore og Haraldar Þórðarsonar. Jafnframt verður haldið í kosti fóstrakerfisins, sem flestir krakkanna hafa skráð sig í s.l. sumur.

Um verður að ræða tvær einnar klukkustundar æfingar á viku, undir leiðsögn þjálfaranna. Því til viðbótar verður ein þriggja klukkustunda æfing, undir stjórn tveggja til þriggja afrekskylfinga GKG, sem mesta reynslu hafa úr fóstrakerfinu. Þær æfingar verða í hópum sem miðað er við að verði 6-7 manna. Ætlunin er að í þeim æfingum verði mikil áhersla lögð á spilæfingar. Þá er markmið æfinganna almennt að kenna krökkunum að æfa sjálf, sem er forsenda framfara. Auk þessa verða skipulagðir æfingahringir fyrir GSÍ mót, undir stjórn þjálfaranna. Þá verður farið á vinavelli og spilað, þrisvar til fjórum sinnum í sumar.

Til þess að geta tekið þátt í þessum sumaræfingum þarf að skrá sig með því að smella hér. Lagt verður á hóflegt skráningargjald, eða 10.000 kr. Vakin er athygli á því að skráningargjald í fóstrakerfi var 12.000 kr. sl. tvö ár. Skráningarfrestur er til þriðjudagsins 15. maí n.k. Greiðsluseðill verður sendur á kennitölu foreldris/forráðamanns og þarf að vera búið að greiða hann áður en æfingar hefjast í byrjun júní . Allar nánari upplýsingar veitir íþróttastjóri GKG, Úlfar Jónsson og formaður unglinganefndar GKG, Gunnar Jónsson.