Frá fyrstu ferð var sú stefna tekin að bjóða aðstandendur kylfinganna velkomna með, undir því fororði að þau skiptu sér ekki minnsta grand af golfiðkan krakkanna. Þetta hefur lánast afar vel. Aðstandendur í þessari ferð voru liðlega 20.

Líkt og í fyrra var haldið til Costa Ballena, syðst á Spáni við Atlantshafið nokkurn veginn miðja vegu á milli Gíbraltar og landamæra við Portúgal. Á svæðinu er glæsilegt æfingasvæði og 27 holu golfvöllur auk glæsilegasta par-3 vallar sunnan Alpafjalla. Sem nærri má geta hélt þjálfarateymið æfingum og spili stíft að krökkunum. Því er nánar lýst í skýrslu íþróttastjórans, sem finna má á unglingasíðu GKG. Hverjum degi lauk síðan með fundi kylfinga og þjálfara, sem deildu út smá verðlaunum til þeirra sem best höfðu staðið sig dag hvern. Sérstakt uppgjör var síðan fyrir ferðina alla, sem lýst er í skýrslu íþróttastjóra.

Dvalið var á spánnýju hóteli (sem er við hæfi þegar dvalarland er haft í huga), Elba. Hótelið var frábært og væsti ekki um nokkurn mann. Ekki skemmdi fyrir að veður var talsvert betra nú en í fyrra, hitastig alla daga um 20 gráður. Sérstaka ánægju vakti að GKG menn voru mun betur að sér um sólarvarnir en kylfingar úr Keili, sem dvöldu á sama stað, mun rauðari en GKG fólk. Vonir pistilritara, sem er sérstakur áhugamaður um sólarvörn, standa til þess að þessi munur sýni sig einnig á golfvellinum í sumar.

Sérstaklega ber að geta þess að sá aðili í þessari ferð sem sýndi mestar framfarir allra, sé miðað við síðustu ferð, var flugfélagið. Í síðustu ferð fengu fæstir kylfingar GKG golfsettin sín fyrr en liðið var á ferð. Þessu sinni vantaði ekki svo mikið sem tí hjá nokkrum manni þegar til Spánar var komið. Segjast verður sem er að golfiðkan sækist mun betur þegar kylfur eru með í för.

Rétt sem í fyrra var ferðin til í samvinnu GKG við Keili. Við mættum með á fimmta tug kylfinga og aðstandenda og Kylfir ámóta vel skipaður. Þá voru verðandi Íslandsmeistarar Breiðabliks í knattspyrnu með í för, auk smærri golfklúbba eins og GR, sem sendu sitt fólk á lakari staði í nágrenninu.

Hörður Arnarson, fyrrum þjálfari Keilis og margreyndur fararstjóri í golfferðum hjá Heimsferðum, hafði veg og vanda af undirbúningi og skipulagningu og kunnum við honum miklar þakkir fyrir. Við viljum líka þakka Keilismönnum fyrir samveruna, sem ekki bar nokkurn skugga á. Eins hvetjum við Breiðablik til dáða í átökum sumarsins.

Fyrst og síðast ber þó að þakka þjálfurunum okkar og krökkunum sem þeir þjálfa. Klárt er að GKG býr ekki að bestu þjálfunaraðstöðu í landinu – enn sem komið er. Hitt er jafn klárt að enginn klúbbur státar af þjálfaraliði sem stenst okkar liði snúning og fyrir það ber að þakka. Þá er ekki síður þakkarvert að við eigum frábæra unglinga, sem ekki eru bara góðir kylfingar, sem er mikilsvert. Mikilsverðara er þó að þau eru frábærir krakkar og GKG hjarta pistilritara gladdist ósegjanlega þegar Magnús Birgisson, sem klárlega er með sjóaðri golffararstjórum, sagðist aldrei hafa tekið á móti betri hópi. Það var aðalmálið. Krakkarnir voru sér og sínum til sóma og ekki síður klúbbnum sínum, GKG.

Ég geng út frá því að krakkarnir séu þegar farin að hlakka til næstu ferðar og leggja drög að fjármögnun hennar, sem kemur alfarið frá þeim sjálfum. Ég vona að mér gefist enn og aftur færi á að taka þátt í henni með krökkunum. Það er einfaldlega svo upplífgandi og endurnærandi.

Gunnar Jónsson,
Formaður Unglinganefndar