Fyrsta móti sumarsins í GSÍ mótaröð unglinga lauk um helgina í Leirunni og náðu keppendur GKG margir hverjir mjög góðum árangri. Egill Ragnar Gunnarsson gerði sér lítið fyrir og sigraði í flokki 14 ára og yngri drengja, lék mjög glæsilega á 71 og 72, eða einum undir á 36 holum. Hægt er að sjá úrslit allra keppenda með því að smella hér.

Hópur verðlaunahafa í stigamótinu. Egill Ragnar er lengst til hægri.

Einnig var keppt í Áskorendamótaröð GSÍ í Sandgerði, en leiknar voru 18 holur. Þátttaka var mjög góð frá GKG og árangur sömuleiðis, en í flokki 14 ára og yngri náðu GKG kylfingar 2.-5. sæti (af 39), þar á meðal Sigurður Garðarsson, sem lék á 84 höggum, aðeins 8 ára gamall! Úrslit allra keppenda er hægt að sjá með því að smella hér.

Næsta GSÍ stigamót unglinga fer fram helgina 5.-6. júní á Korpúlfsstaðavelli, og Áskorendamótaröðin verður 5. júní hjá Kili Mosfellsbæ.