Um 80 manns mættu á félagsfund GKG nú í kvöld. Guðmundur Oddsson byrjaði á að fara yfir mál málanna sem er bygging nýs skála eða íþróttamiðstöðvar. Verið er að vinna í hönnunarvinnu og er verkfræðivinnan að hefjast. Gert er ráð fyrir því að byrjað verði á framkvæmdum nú í haust.

Gummi vallarstjóri fór yfir verkefni vetrarins. Í 10 vikur voru þrír starfsmenn eingöngu í að brjóta klaka af flötum og tókst sú aðgerð vel. Ekki fer neitt á milli mála að þær aðgerðir gerðu það að verkum að flatirnar koma stórslysalaust undan vetri. Einhverjar skemmdir eru á teigum og brautum og er verið að sá í þær. Búast má við að lagfæringarnar skili sér til baka í júní og völlurinn verði í fínu standi fyrir stærsta golfviðburð ársins Íslandsmótið í golfi. Ný salernisaðstaða verður tekin í notkun núna í vor, en hún er staðsett við 5. flöt á Mýrinni og 14. flöt á Leirdalsvelli. Þá hefur verið unnið við að ræsa 15. braut á Leirdal og er sú vinna langt á veg komin. Að lokum tilkynnti Gummi að vellirnir opna næstkomandi Laugardag kl. 8:00, efri hluti Lerdalsvallar verður þó lokaður áfram í vikutíma eða svo. Verið er að sá í skemmdir á brautum á þeim hluta vallarins. Heilt á litið kemur völlurinn mun betur undan klakanum heldur en menn þorðu að vona og fer það ekki milli mála að aðgerðir Gumma og hans fólks höfðu gríðarlega mikið um það að segja.

Úlfar Jónsson fór yfir þá þætti sem skipta máli fyrir kylfinga í upphafi golfsumars. Lykilatriði að hafa gaman af golfinu og njóta. Þá þarf maður að setja sér markmið, helst skrifleg og fylgja þeim eftir með framkvæmdamarkmiðum, þ.e. hvað fólk ætlar að leggja á sig til að ná fyrrgreindum markmiðum. GKG býr vel að góðu grassvæði til að æfa 100 metra högg og niður, ef markmiðið er að lækka forgjöfina þá hjálpar stutta spilið mikið og um að gera að nýta sér frábæra aðstöðu okkar GKG-inga

Gunnar Páll, formaður nefndar um Íslandsmótið í Höggleik fór yfir stöðuna. Mikilvægt er að fá sem flesta sjálfboðaliða á það mót, margar hendur vinna létt verk og er markmiðið að ná 100 sjálfboðaliðum. Hægt er að skrá sig sem sjálfboðaliða á vef GKG. Að öðru leiti gengur undirbúningurinn vel og munar gríðarlega mikið um stuðning Sveitafélaganna við mótið, en bæði Kópavogur og Garðabær styðja klúbbinn við að gera mótið sem glæsilegast.

Fundurinn tók ekki nema 45 mínútur og gafst því fundarmönnum gott tóm til að njóta veitinga hjá Sigga vert, spjalla og eiga góða stund saman.