Stefna Íþróttanefndar GKG undanfarin ár hefur verið að efna til æfingaferða Keppnis- og Afrekshópa, auk Meistaraflokka. Fyrstu árin fóru Meistarflokkar í æfingaferðir til St. Andrew´s í Skotlandi, tvö ár voru æfingaferðir farnar til nágrennis Lundúna á Englandi, en síðastliðin 6 ár hefurSpánn orðið fyrir valinu, enda meira öryggi varðandi veður, sem og kostnaður hefur verið sambærilegur hvað varðar áfangastaði þar.

Að þessu sinni varð Hacienda del Alamo í Murcia héraði fyrir valinu, og héldu 32 ungir kylfingar af stað, fullir tilhlökkunar að fá loksins að takast á við “alvöru” golf-aðstæður eftir inniæfingar í vetur í Kórnum. Auk þess voru alls 24 aðstandendur sem nýttu tækifærið og skelltu sér með til að undirbúa sig fyrir sumarið. Þjálfarar GKG, þ.e. undirritaðir, sáu um skipulagningu og þjálfun unglinganna meðan á för stóð. Æfingaferðin var frá 10. – 17. apríl. Þátttakendur söfnuðu fyrir ferðinni með með margvíslegum fjáröflunum.

Markmið æfingaferða GKG eru m.a. að:
o Njóta þess að leika golf við góðar aðstæður í góðum félagsskap.
o Æfa og spila markvisst, öðlast nýja reynslu og þekkingu.
o Ná að setja í leik á golfvelli það sem búið er að æfa í vetur.
o Efla tengsl og vináttu meðal þátttakenda.

Allir þurftu að fylla út tölfræðiblöð á hverjum hring og skila inn til þjálfara, svo hægt væri að rýna betur í árangurinn og meta hvað þurfti að leggja áherslu á varðandi æfingar. Þakkir fá Hilmar og Kollý sem útbjuggu og gáfu hópnum veglega tölfræðiblokk sem krakkarnir geta notað til að halda utan um árangur sinn og tölfræði.

Stutta spils æfingar miðuðust fyrst og fremst við keppnislíkar og mælanlegar æfingar, þar sem hægt var að bera árangur hvers og eins saman við þá bestu.

Hópurinn var einstaklega heppinn með veður og allar aðstæður. Völlurinn, sem opnaði 2005, var hannaður með stórmót í huga, en hann er afar langur, af öftustu teigum mældist hann 6700 metrar, og af rauðum teigum yfir 5500 metrar, sem er lengra en flestir vellir á Íslandi eru af gulum teigum. Því voru útbúnir sérstakir teigar í brautarbyrjun fyrir þau allra yngstu. Brautirnar voru harðar, sem gaf auka metra í teighöggin, ef fólk hitti þær! Fyrir utan brautirnar var mikið af vel staðsettum glompum, sem og í kringum flatir, þannig að allir fengu góða reynslu af því að leika krefjandi völl. Æfingasvæðið var fyrsta flokks, bæði hvað varðar æfingar fyrir löng högg og stutta spilið. Auk þess var frábær 6 holu völlur með þremur par 3 og þremur par 4 brautum. Þar sem ekki var mikið um annað fólk á svæðinu en okkar hóp, þá var hægur vandi að komast að öllum svæðum og leika meira golf eftir að 18 holu hring var lokið.

Á Hacienda fengum við afbragðs þjónustu að öllu leiti, og ef eitthvað vantaði uppá, þá lagði starfsliðið sig vel fram við að lagfæra þá hluti. Smá örðugleikar voru í byrjun þegar vantaði töluvert uppá að nægilega margar kerrur væru fyrir mannskapinn, en þá voru einfaldlega fengnar að láni kerrur frá nærliggjandi golfvöllum til að leysa það mál.

Tvö mót voru haldin í ferðinni. Fyrst var haldið höggleiksmót þar sem veitt voru verðlaun fyrir bestan árangur í hverjum aldursflokki. Keypt voru verðlaun í prosjoppunni, gripir merktir klúbbnum til minninga um ferðina og góðan árangur. Margir náðu ágætum skorum og lækkuðu í forgjöf eftir þennan dag, en úrslitin urðu eftirfarandi:

Bestu skor án forgjafar hjá piltum

14 ára og yngri drengir – rauðir teigar Skor
1. Bragi Aðalsteinsson 79

15-16 ára drengir – gulir teigar Skor
1. Kristófer Dagur Sigurðsson 82
1. Óðinn Þór Ríkharðsson 82

17 ára og eldri piltar – hvítir teigar Skor
1. Emil Þór Ragnarsson 75

Úrslit með forgjöf V.fgj. Skor M. fgj.
1. Magnús Friðrik Helgason 22 88 66
2.-3. Jóel Gauti Bjarkason 20 89 69
2.-3. Ásbjörn Freyr Jónsson 15 84 69

Bestu skor án forgjafar hjá stúlkum

14 ára og yngri telpur – rauðir teigar Skor
1. Hulda Clara Gestsdóttir 97

15-16 ára stúlkur – rauðir teigar Skor
1. Borg Dóra Benediktsdóttir 97

17 ára og eldri stúlkur – bláir teigar Skor
1. Særós Eva Óskarsdóttir 88

Úrslit með forgjöf V.fgj. Skor M. fgj.
1. Herdís Lilja Þórðardóttir 36 103 67
2. Helena Kristín Brynjólfsdóttir 25 96 71
3. Ásthildur Lilja Stefánsdóttir 25 98 73
Aðal mótið í ferðinni var þó Ryder keppnin milli leikmanna búsetta í Garðabæ gegn þeim sem búsettir eru í Kópavogi og nágrenni. Að þessu sinni voru foreldrar og aðstandendur einnig með í keppninni, og því alls 30 stig í pottinum. Leikin var holukeppni maður gegn manni (tvímenningur). Skemmst er frá því að segja að Kópavogur og nágrenni fóru með öruggan sigur af hólmi, 18 – 12! Fyrsta “opinbera” keppnin fór fram í fyrra og sigraði þá Garðabær, og er staðan því jöfn milli bæjarfélagana, 1 – 1. Ákveðið var að kaupa verðlaunagrip sem keppt verði um árlega í æfingaferðunum. Hér fyrir neðan má sjá mynd af sigurliði Kópavogs og nágrennis.

Vikan var eins og alltaf þegar gaman er, ótrúlega fljót að líða, og brottfarardagur rann upp fyrr en margir hefðu kosið. Margir nýttu hverja mínútu þann dag mjög vel og náðu jafnvel að leika heilan hring, meðan aðrir nýttu sér góðar aðstæður á æfingasvæðinu. Þó svo að ekki sé búið að opna golfvellina okkar í GKG, þá er mikilvægt að krakkarnir nýti sem flest tækifæri og fari út á völl og slái af grasi eða leiki nokkrar holur á æfingavellinum, eftir að skóla lýkur á daginn.

Í lokin viljum við þjálfarar þakka krökkunum fyrir góðar samverustundir í ferðinni. Þau voru sér og sínum auk GKG til mikils sóma, ávallt jákvæð og tilbúin í verkefnin sem fyrir þau voru lögð, þó álagið væri mikið, en æfingar og spil stóðu í allt að 10-12 tíma hvern dag hjá þeim eldri.

Sérstakar þakkir fær fararstjóri okkar á vegum Heimsferða, Júlíus Geir Guðmundsson, en hann var ávallt til staðar og reiðubúinn að leysa úr vandamálum ef einhver voru. Júlíus er einnig mikill söngvari og tók fram kassagítarinn lokakvöldið og náði upp góðri stemmningu í hópnum.

Kærar þakkir fær hinn frábæri foreldrahópur sem við þjálfarar erum svo lánsamir að eiga gott samstarf við. Heil vika saman í góðum félagsskap við sameiginlegt áhugamál styrkir tengsl þjálfara, barna, og foreldrahópsins sjálfs. Framtíð GKG er afar björt með breiðan hóp heilsteyptra ungra einstaklinga, en með áframhaldandi dyggum stuðningi stjórnar GKG og foreldra þeirra geta þau náð frábærum árangri á íslenskri og erlendri grundu, ef áhuginn og dugnaðurinn er fyrir hendi.

Myndir úr ferðinni eru komnar á myndasafn GKG, og er hægt að nálgast þær hér.

Bestu kveðjur frá þjálfurum,
Úlfar, Hlynur, Derrick og Birgir Leifur