Dagurinn heldur áfram að styttast og með minnkandi dagsbirtu verða möguleikar grassins á ljóstillífun þverrandi, jafnvel þó að lofthiti nái 6-8 °C yfir hádaginn. Öll sár, boltaför og skemmdir á grasplöntunni eiga því litla möguleika á því að gróa fyrir veturinn. Það er það síðasta sem við viljum því það er heimboð fyrir óæskilegri grastegundir og illgresi sem fylla í sáran grassvörð þegar vora tekur.

Þrátt fyrir lágan lofthita með haustinu heldur plantan þó áfram að styrkja rótarkerfið meðan ekki er komið frost. Forsenda fyrir heilbriðgðum og öflugum rótavexti er gott jafvægi á milli lofts og vatns í jarðvegi. Rætur vaxa ekki í jarðvegi heldur milli jarðvegsagna.

Þá komum við að þeim þætti þar sem umferð kylfinga veldur einna mestum skaða. Haustinu fylgir meiri bleyta, þó hún sé mismikil eftir aðstæðum á hverjum stað. Þegar jarðvegur er blautur, þjappast hann meira en þegar hann er þurr, og getur “bygging” jarðvegsins jafvel eyðilagst (leðja, drulla). Þjöppun undan fóta kylfinga minnkar möguleika plöntunar á góðum rótarvexti sem er ein af forsendum góðra flata. Það er ein aðalástæða fyrir því að við götum flatir. Þá brotnar/losnar um þjappaðan jarðveg sem auðveldar plöntunni rótarvöxt.

Þetta eru einungis nokkrar augljósar ástæður fyrir þvi að við hlífum flötunum eins og við getum.

Grænn golfvöllur og grænar flatir fram eftir hausti í fallegu veðri er ekki ávísun á það að flatir þoli vel álag. Við sjáum ekki endilega afleiðingar álags við viðkvæmar aðstæður strax, en eins og með okkur mannfólkið, kemur álagið fram fyrr eða síðar. Okkar aðgerðir eru því ávalt fyrirbyggjandi.

Kæru félagar, það er ekki af illkvitni sem við lokum flötunum. Við viljum tryggja að flatirnar verði sem allra bestar, sem allra fyrst næsta vor. Í sumar voru leiknir 51.000 hringir á völlum GKG. Það var aukning upp á 12.000 hringi frá fyrra ári. Þessi aukning er ánægjuefni, og er það okkar verk að tryggja að flatir, teigar og brautir missi ekki gæði samhliða aukningu og er það okkar von að gott veðurfar seinni hluta haustins styrki völlinn okkar fyrir komandi vetur.

Bestu kveðjur,
Vallar- og aðstoðarvallarstjórar GKG