Næstkomandi miðvikudag, þann 18.júní hefst hin árlega mótaröð GKG. Fyrirkomulagið verður að mestu eins og undanfarin ár. Sjö mót verða haldin yfir sumarið og fara þau þannig fram að kylfingar skrá sig á rástíma á Leirdalsvellinum eins og um venjulegan hring væri að ræða. Áður en farið er út þá þurfa þeir sem ætla sér að taka þátt í mótinu að mæta í ProShop GKG, skrá sig og greiða mótsgjald sem í ár er 1.000 krónur. Fá þeir þá í hendur skorkort sem skilað er inn að leik loknum, en kylfinga hafa tíma til lokunar á fimmtudegi að skila inn kortinu. Keppt er með punktafyrirkomulagi og eru vegleg verðlaun fyrir flesta punkta í hvorum flokki á hverju móti. Stærsta keppnin er samt heildarkeppnin, en bestu fjögur mótin punktalega séð telja í heildarkeppninni og þeir sem spila stöðugt golf yfir sumarið eiga gott tækifæri á að vinna til veglegra verðlauna.

 

Í ár verður keppt í tveimur flokkum, karlaflokki og kvennaflokki, og hljóta bestu fimm í hvorum flokki verðlaun í heildarkeppninni. Verðlaun í ár verða meðal annars Yes-pútterar og fleira sem kemur í ljós þegar líður á sumarið. Einnig verða veitt verðlaun fyrir hvert einstakt mót í hvorum flokki og fá kylfingar 3.000 króna boltakort fyrir annað sæti og 5.000 króna inneign í ProShop fyrir að vinna sinn flokk.

 

Miðvikudagsmótaröðin er án efa næst stærsta innanfélagsmótið okkar hér í GKG (á eftir meistaramótinu) og því hvetjum við kylfinga til að taka þátt, enda er þetta stórskemmtilegt mót og getur verið ansi spennandi þegar líður á sumarið. Þátttaka í mótunum hefur verið góð undanfarin ár en lengi má bæta við og því hvetjum við alla félagsmenn til að taka þátt í ár. Sjáumst hress á miðvikudaginn!