Eftirfarandi texti er tekinn upp úr handriti að 20 ára sögu GKG sem þeir Guðmundur Ólafsson, Gunnlaugur Sigurðsson og Hákon Sigurðsson rituður í tilefni af 20 ára afmælisári GKG.

“Um 1964 fóru nokkrir golfáhugamenn á höfuðborgarsvæðinu sunnan Reykjavíkur, þ.e. í Kópavogi, Garðhreppi, Bessastaðahreppi og Hafnarfirði, að ræða stofnun nýs golfklúbbs á svæðinu og finna honum góðan stað. Aðeins tveir golfklúbbar voru þá á öllu höfuðborgarsvæðinu, Golfklúbbur Reykjavíkur, stofnaður 14. desember 1944 og Nesklúbburinn, stofnaður 4. apríl 1964. Á þessum tíma var golfið ekki orðið eins vinsæl almenningsíþrótt og síðar varð.
Leituðu þeir félagar víða í landi fyrrnefndra sveitarfélaga að hentugum stað fyrir golfvöll. Töldu þeir Vífilsstaðatúnin álitlegan kost.
Haft var samband við Júlíus Sólnes, góðan kylfing frá Akureyri og hann beðinn um að gera uppdrátt að golfvelli á svæðinu. Þegar sá uppdráttur lá fyrir var kannað hvort stjórn Ríkisspítalanna gæti samþykkt hugmyndina. Var erindinu svo afdráttarlaust hafnað að hugmyndin var afskrifuð með öllu.”

Jónas A. Aðalsteinsson kom færandi hendi á skrifstofu GKG nú í vikunni og færði okkur þau gögn sem hann hafði undir höndum varðandi þetta erindi og færum við honum bestu þakkir fyrir. Hægt er að lesa og skoða uppdráttinn með því að smella á hlekkina hér að neðan:

Erindi til Ríkisspítalanna -> Bréf til Ríkisspítala sent af Jónasi A. Aðalsteinssyni 1967

Fyrsti uppdráttur af golfvelli á Vífilsstaðalandi, teiknað af Júlíusi Sólnes -> Fyrsti uppdráttur af hugsanlegum golfvelli á Vífilstaðalandi – Júlíus Sólnes