Þrír afrekskylfingar bættust við í hóp þeirra sem sækja háskólanám í Bandaríkjunum á golf skólastyrk. Fyrir eru Ragnar Már Garðarsson sem er núna á sínu lokaári hjá University of Louisiana – Lafayette. Emil Þór Ragnarsson er á öðru ári við nám hjá Nicholls State háskólann í Louisiana. Í haust bættust við Aron Snær Júlíusson sem hóf nám við sama skóla og Ragnar Már; Egill Ragnar Gunnarsson sem hóf sína háskólagöngu í haust við Georgia State háskólann, og Særós Eva Óskarsdóttir við Boston University. Alls eru því nú fimm afrekskylfingar úr GKG við nám á golf skólastyrk.
Okkur langaði að heyra frá þeim hvernig gengur að aðlagast ofl., og á næstunni birtast stutt viðtöl við kylfingana okkar, og fyrst fáum við fréttir af henni Særós.
Nafn: Særós Eva Óskarsdóttir
Fædd: 1995
Meðlimur í GKG síðan 2007
Forgjöf í dag: 3,6
Skóli: Boston University, Boston Massachusets
Heimasíða golfliðsins
Upplýsingar um mótaskrá og árangur golfliðs BU
Hvernig kom það til að þú fórst í þennan skóla?
Upphaflega þá langaði mig að fara í skóla í Flórída eða Kaliforníu upp á veðrið að gera en það gekk illa að finna skóla þar sem mér leist jafn vel á golfprógramið og námslega hlutann því ég vildi fara í skóla sem væri líka sterkur námslega séð. Mig langaði einnig að vera í skemmtilegri borg og fór því að skoða Boston og á endanum varð Boston University fyrir valinu.
Færðu góðan skólastyrk?
Já ég er á fullum styrk.
Hvaða námi ertu í?
Ég er í viðskiptafræði og stefni á að fá gráðu í fjármálum.
Hvernig hefur gengið að aðlagast nýju umhverfi og menningu?
Það hefur gengið mjög vel hingað til þótt að allt hérna sé mjög ólíkt því sem ég þekki að heiman. Það var samt frekar skrýtið í byrjun að þurfa að tala ensku alla daga en það er fljótt að venjast.
Hvað hefur komið mest á óvart?
Líklegast hvað það er mikið að gera og tíminn eiginlega bara flýgur frá manni. Get ekki beint sagt að það hafi komið mér á óvart en það er mun erfiðara að finna hollan mat hérna heldur en heima.
Eru góðar aðstæður til að æfa og spila?
Já við erum með 3 fína velli sem við spilum á en þeir eru allir í töluverðri akstursfjarlægð frá skólanum vegna þess að skólinn er í miðbæ Boston. Við erum svo með ágætis inniaðstöðu á campus sem við notum þegar við komumst ekki út að spila.
Eru mörg og spennandi mót framundan?
Ég er einmitt stödd núna í Connecticut að spila á Yale Invitational og við eigum svo eftir eitt mót á þessu tímabili sem er á Kiawah Island. Ég er samt spenntust fyrir vorferðinni okkar en þá förum við í 12 daga til San Francisco og spilum á móti hjá Fresno State ásamt því að gera eitthvað fleira skemmtilegt.
Eitthvað að lokum?
Ég mæli hiklaust með að fara í skóla hér í Bandaríkjunum, allavega í Boston University, því þetta er frábært tækifæri til að sameina nám og íþróttina sem maður vill stunda. Það er einnig gott að byrja að sækja um sem fyrst, því fyrr því betra.