Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti á dögunum að veita Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, GKG, viðurkenningu að fjárhæð kr. 250.000 í tilefni af Íslandsmeistaratitli karlasveitar klúbbsins í sveitakeppni árið 2007.
Í greinargerð sem fylgir með styrkveitingunni segir m.a. "Sveitakeppni er ekki ólík öðrum flokkaíþróttum að því leyti að samanlagður árangur liðsmanna sveitarinnar telur í hverjum leik. Liðsmenn sveitarinnar eru bestu golfarar félagsins hverju sinni og því miklar fyrirmyndir yngri leikmanna en börn og unglingar eru rétt um 20% meðlima. Kylfingarnir æfa allt árið um kring og vinna samhliða æfingum. Liðsmenn sveitarinnar ásamt þjálfara og liðsstjóra voru samtals 10. Hróður GKG fer víða og heldur uppi merkjum Garðabæjar á golfvöllum landsins."
Karlasveit GKG hefur verið í fyrstu deild í nokkur ár. Sveitin varð Íslandsmeistari árið 2004 og endurtók leikinn í fyrra.