Það styttist heldur betur í sumarið okkar og aldeilis við hæfi að einn af stofnendum Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar gefi okkur tóninn inn golfævintýrin framundan. Við erum að tala um afrekskylfinginn og Kópavogsbúann glaðværa Ágústu Guðmundsdóttur sem lumar á góðum ráðum handa ungu kylfingunum okkar og er bara dásamleg fyrirmynd fyrir okkur öll sem elskum að glíma við þessa skemmtilegu íþrótt. Ágústa er margfaldur klúbbmeistari, 85 ára gömul er hún með 29,5 í forgjöf og er eitt af notalegu kennileitum GKG sumarsins þar sem hún líður brosandi um GKG vellina með fólkinu sínu og nýtur golfsins. Gefum meistara Ágústu orðið.

 

Ágústa ásamt dætrum sínum Ástu vinstra megin, Sigríði fyrir miðju og Einari bróður.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?  

Ég og fjölskylda mín fluttumst til Vestmannaeyja 1961 þegar ég var tæplega þrítug. Þar kynntist ég fljótlega golfinu og er mjög þakklát fyrir það. Í byrjun fannst mér lítið spennandi að elta þessa litlu kúlu en breytti fljótlega um skoðun þegar Jakobína og Systa vinkonur mínar kenndu mér undirstöðuatriði golfsins. Þá var ekki aftur snúið og ég átti ógleymanlegar stundir á golfvellinum fagra í Vestmannaeyjum.  Hann er enn í dag minn uppáhaldsvöllur enda fagur með eindæmum.

Eftir að við fluttum í Kópavoginn rétt fyrir gos þá gekk ég í Golfklúbb Reykjavíkur.  Þar varð ég fjórum sinnum klúbbmeistari, sem ég er mjög stolt af. Ég var meira að segja kosin afrekskylfingur einu sinni.   Ég fór lægst í forgöf niður í um 12 en er í dag um 29.5 í forgjöf.

Hvers vegna valdirðu GKG?

Ég er einn af stofnendum GKG og hef verið meðlimur þar frá byrjun.   Ég er mjög ánægð með vellina hjá GKG en núorðið spila ég meira Mýrina.  Ég er með golfbíl sem er æðislegt og auðveldar mér mikið mína golfiðkun í dag. Mér finnst starfsmenn og meðlimir klúbbsins frábærir.  Ég hef átt ótal minningar og ánægjustundi með dásamlegum klúbbfélögum GKG.

Ef ég ætti að velja skemmtilgustu golf holuna sem ég hef spilað þá myndi ég velja 17. holuna á Grafarholtsvellinum vegna þess að þar fór ég holu í höggi á landsmóti 1984.

Draumahollið mitt myndi vera samsett af Viktor Hovland, Tiger Woods og Úlfari Jónsyni ásamt mér.  Það væri ekki slæmur dagur á vellinum.   En annars er ég alltaf ofsalega ánægð með að spila með Einari bróður mínum, dætrum mínum og öðrum úr fjölskyldunni sem eru öll í GKG líka.

Það er spennandi fyrir okkur sem komu seinna inn í klúbbinn að vita hvernig upphafsárin voru, getur þú lýst því fyrir okkur?

Í byrjun var aðstaðan auðvitað ekki næg en það breyttist fljótlega til batnaðar og ekki síst þegar Leirdalurinn varð tilbúinn.  Aðstaðan hefur svo stöðugt verið að batna og það varð algjör bylting þegar klúbbhúsið var byggt.  Ég er mjög ánægð með aðstöðuna hjá klúbbnum í dag. 

 

Miðað við upphafsárin, hvernig finnst þér klúbburinn hafi breyst. Höfum við t.d. náð að viðhalda GKG – andanum?

GKG- andinn er alveg frábær og hefur alltaf verið það að mínu mati.  Alveg hreint frábært fólk í þessum klúbb og góð stemning. 

 

Ágústa, í miðjunni, ca. 1967 með Jakobínu og Systu.

Við erum með fullt af efnilegum ungum stelpum sem eru að byrja sinn golfferil, áttu einhver góð ráð handa þeim?

Það er bara að gefast ekki upp þótt að móti blási og leita til kennara eða þjálfara ef þörf er á.  Muna svo alltaf hvað þetta eru mikil forréttindi að fá að stunda golfið, þessa dásamlegu íþrótt sem er alltaf skemmtileg en stundum svo erfið.  Þá er aldrei að vita nema að þær verði enn úti á velli þegar þær eru orðnar 85 ára eins og ég. 

Í gegnum árin hef ég spilað og keppt á flestum golfvöllum landsins og þvílíkar minningar.  Það var mikil gæfa fyrir mig að kynnast golfinu og í dag eru flestir í fjölskyldu minni að spila golf líka.  Ég vona að ég haldi áfram sæmilegri heilsu svo ég geti verið með fólkinu mínu í golfi eins lengi og ég mögulega get.  Þakkir fyrir mig og áfram GKG