Tímabilinu er svo sannarlega ekki lokið hjá okkar fremstu kylfingum, en þeir verða á faraldsfæti á næstu vikum.

Emil Þór Ragnarsson tekur þátt í Opna austurríska áhugamannamótinu 5. – 8. september, en mótið fer fram á Golf Club Linz í St. Florian í Austurríki. Sigmundur Einar Másson sigraði einmitt á þessu móti fyrir nokkrum árum.

Aron Snær Júlíusson tekur þátt í tveimur stórmótum á næstunni, en hann verður fulltrúi Íslands á Duke of York Young Champions mótinu, ásamt Önnu Sólveigu Snorradóttur úr Keili. Mótið fer fram á Royal St. Georges vellinum í Kent á Englandi dagana 10.-12. september. Þess má geta að Ragnar Már Garðarsson sigraði á þessu móti í fyrra, og Guðmundur Ágúst Kristjánsson sigraði einnig árið 2010, einmitt þá á St. Georges vellinum.

Aron Snær keppir einnig með U18 piltalandsliðinu á EM Challenge Trophy mótinu í Slóvakíu 19.-21. september, en Egill Ragnar Gunnarsson verður einnig í landsliðshópnum á sama móti. Markmiðið er að lenda meðal þriggja efstu og tryggja sér þannig þátttökurétt á EM landsliða á næsta ári.

María Guðnadóttir og Bergljót Kristinsdóttir keppa með öldungalandsliði kvenna í Bled í Slóveníu dagana 3.-7. september.

Fremsti kylfingu landsins Birgir Leifur Hafþórsson tekur þátt í úrtökumótum á næstunni þar sem hann freistar gæfunnar á að tryggja sér þátttökurétt í fremstu mótaröðum heims.

Það verður nóg um að vera hjá Ragnari Má, sem nýverið hóf háskólaferill sinn með McNeese State háskólanum í Louisiana. Ragnar Már var búinn að vera í skólanum í þrjá daga þegar hann fór á fyrsta háskólamótið í Verona í New York fylki. Ragnar hefur leikið mjög vel fyrstu tvo dagana af þremur, en hann var á 68-74, sem er 5. sæti í einstaklingskeppninni, en skólinn hans er í 2. sæti. Hægt er að fylgjast með gengi Ragnars hér.

Síðast, en ekki síst, þá munu þær Ingunn Gunnarsdóttir, Ragna Björk Ólafsdóttir og Gunnhildur Kristjánsdóttir taka þátt í Evrópumóti klúbbliða 26.-28. september á St. Sofia vellinum í Búlgaríu. Þátttökuréttinn á mótinu fengu þær fyrir sigurinn í Sveitakeppni GSÍ.

Gaman verður að fylgjast með fremstu kylfingum okkar í þeirra verkefnum.

Áfram GKG!