Hvað er meira við hæfi en að segja bless við vetur konung og heilsa golfsumrinu með viðtali við einn af okkar mögnuðu kylfingum úr barna- og unglingastarfi GKG? Við kynnum með stolti Karen Lind Stefánsdóttur sem er 14 ára Kópavogsbúi með 7,4 í forgjöf og er á fljúgandi siglingu inn í spennandi golfframtíð! Karen hefur tekið miklum framförum en hún hefur verið kosin efnilegust stúlkna undanfarin tvö ár fyrir mestu bætingu í mótum.
Hvað dró þig að golfinu og hvenær?
Ég fór fyrst á sumarnámskeið þegar ég var fimm ára með frænda mínum og mér fannst það mjög skemmtilegt þannig að ég fór hvert sumar eftir það þangað til ég var 7 ára sem var þegar ég byrjaði að æfa.
Hvers vegna valdirðu GKG?
Það er klúbburinn næst okkur og það er gott barna- og unglingastarf þar.
Mýrin eða Leirdalur?
Leirdalur.
Hvað stóð upp úr hjá þér eftir síðasta golfsumar?
Líklegast Íslandsmótið vegna þess að það var ný upplifun.
Hvert er planið og leynivopnið fyrir golfsumarið framundan?
Drævin og vonandi stutta spilið.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?
Það er ekki hægt að velja þar sem að ég elska allar í liðinu mínu en ef einhver ætti að vera með sem er utanaðkomandi félagsmaður yrði ég bara víst að bjóða pabba mínum.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?
Örugglega þegar við lentum í öðru sæti á Íslandsmóti golfklúbba 15 ára og yngri árið 2019.
En það vandræðalegasta?
Það var í fyrsta sinn sem ég tók þátt í unglingamótaröðinni. Hún var í GKG en við pabbi vissum ekki að þetta voru tveir hringir og höfðum bókað okkur á Mýrina á öðrum deginum á sama tíma og ég átti rástíma. Þannig að ég spilaði bara Mýrina og vissi ekkert að ég ætti að vera að keppa á Leirdalsvelli.
Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt?
Já og uppáhaldið mitt væri líklegast Niðjamótið þar sem að ég get keppt með pabba.
Hvert er uppáhalds leikformið þitt?
Höggleikur en af og til holukeppni gegn pabba.
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
Örugglega fyrsta og það er vegna þess að stressið á hringnum er ekki komið.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni?
Þriðja, vegna þess að hún er krefjandi en það er hægt að fá fugl af og til ef þú spilar hana rétt.
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?
Líklegast Hlíðarvöllur í Mosó.
Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?
Já ég nota þá en þá mest fyrir tæknilegar æfingar.
Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?
Dræverinn. Besta leiðin til að negla beint á braut.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu?
Já ég á mér margar en líklegast yrði það aðallega Brooke Henderson.
Hvernig nestar þú þig út á golfvöll?
Ég hef alltaf með mér ávaxta rúllur, ávexti og rískökur.
Hvað er lang, lang best við GKG?
Liðsandinn og þjálfararnir.

Karen Lind fyrir miðju ásamt öðrum ungum afrekskylfingum í GKG og þjálfurum þeirra.