Það sem einkennir Leirdalsvöllinn er kannski helst tjarnirnar sem liggja upp með öllum vellinum og eru hlaðnar listilega með fallegum grjóthleðslum sem gefa vellinum svip sem vart á sinn líkan hér á landi. Spila þessar tjarnir mikið hlutverk í leik kylfinga á vellinum og setja auk þess mjög fallegan svip á völlinn. Þá hefur fullvöxnum trjám úr nærliggjandi byggingasvæðum verið komið haganlega fyrir inni á vellinum. Það sem kann að koma kylfingum spánskt fyrir sjónir þegar þeir leika Leirdalinn er að umhverfis hann eru fallegir göngustígar auk reiðstíga, en auk þess er reiðstígur þvert í gegn um völlinn á milli 8. og 2. flatarinnar. Er þetta gert í fullri sátt hestamanna og forsvarsmanna GKG sem telja samstarf við hestamenn eingöngu af því góða og hefur reynslan verið sú undanfarin ár að hestamenn og kylfingar geta lifað í fullri sátt og í samlyndi með góðu skipulagi og gagnkvæmri virðingu.
Engu hefur verið til sparað af Kópavogsbæ sem hefur byggt þessa glæsilegu viðbót í íslenska golfvallarflóru frá grunni. Golfvallarsvæðið í Leirdal er lokaáfangi við gerð fyrsta 27 holu golfvallar hér á landi í samvinnu beggja sveitarfélaganna Kópavogs og Garðabæjar í náinni samvinnu við GKG sem hefur séð um ráðgjöf og umsjón með allri faglegri vinnu við gerð vallarins. Samvinna tveggja sveitarfélaga á þessu sviði er líklega einsdæmi hér á landi. Stjórnendur bæjanna hafa frá upphafi verið sammála um að vanda vel til alls undirbúnings verksins og síðan allra framakvæmda. Þeirri stefnu hefur verið fylgt eftir æ síðan.
Allir félagar GKG og aðrir kylfingar sem koma til leiks á Leirdalsvelli munu um ókomna tíð minnast stórhuga forystumanna bæjanna sem stóðu að þessari framkvæmd með virðingu og þakklæti.
Leirdalsvöllur sem er 9 holu viðbót við golfvallarsvæðið á Vífilsstöðum er PAR 35 völlur með tveimur par 5 holum, fjórum par 4 holum og þremur par 3 holum sem allar hafa til að bera sinn eigin karakter. Völlurinn er 2.900 metra langur af hvítum teigum en um 2.700 metrar af gulum. Á öllum flötum og teigum er búið að koma fyrir sjálfvirku vökvunarkerfi til þess að tryggja góðan vöxt og auðvelda umhirðu. Á Leirdalsvelli eru fjögur teigasett rauð, blá, gul og hvít teigar auk þess sem uppi eru áform um að bæta við fimmta teigasettinu á næstu árum.
Allt bendir nú til þess að hægt verði að opna þennan glæsilega völl á árinu 2006 og verður kapp lagt á að svo megi verða. Einungis eru eftir lítilleg frágangsatriði til þess að gera völlinn tilbúinn til notkunar. Flatir og teigar hafa náð að gróa mjög vel á síðustu árum og eftir að sjálfvirka vökvunarkerfið komst í gagnið á síðasta sumri varð mikil breyting á vellinum til batnaðar. Það er því ljóst að spennandi kostur fyrir kylfinga mun standa til boða strax á næsta ári ef allt gengur að óskum.