Viljayfirlýsing um áframhaldandi stuðning við uppbyggingu GKG á næstu árum.

 

1. “Bæjarfélögin munu í sameiningu styðja við uppbyggingu á æfingahúsi, enda er gert ráð fyrir að efla m.a. enn frekar unglinga- og kvennastarf GKG með tilkomu þess”

2. “Bæjarfélögin munu framlengja fjárhagssamning til greiðslu skulda vegna framkvæmda sem gerður var á milli sveitarfélaganna og GKG árið 2002 og rann út í febrúar 2006”

3. “Á grundvelli viljayfirlýsingar þessr munu bæjarfélögin gera nánara samkomulag við GKG um ofangreind málefni í tengslum við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2007”

 

Eins og gefur að skilja hefur það aðallega verið fyrsti liður ofangreindrar yfirlýsingar sem hefur verið í algjörum forgangi af hálfu forsvarsmanna klúbbsins og hefur ómældum fjármunum og tíma margra aðila verið varið í að koma hugmyndum um æfingahúsnæði og endurnýjun æfingasvæðisins í framkvæmanlegt horf. Nú í síðustu viku var síðan fullgerðum hugmyndum stjórnar klúbbsins að stórglæsilegu æfingahúsnæði komið til bæjarstjóranna og hafa þeir fjallað um málið innan bæjarráða sinna bæja. Samkvæmt bókun á fundi bæjarráðs Kópavogs sem fram fór fimmtudaginn 22. febrúar s.l. hefur bæjarstjóranum verið falið málið til úrvinnslu. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar sem fram fór þann 27. febrúar s.l. hefur málinu hins vegar á þessu stigi verið vísað til nánari athugunar bæjarstjóra.

 

Í fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða í flokki æskulýðs og íþróttamála í heild sinni verði um 428 milljónir króna. Þar eru 15 milljónir áætlaðar til framkvæmda við golfvöll á árinu 2007. Í fjárhagsáætlun Kópavogs er umsvifamesti málaflokkurinn hvað framkvæmdir snertir, íþróttamál sem fá í sinn hlut 1,7 milljarð króna á árinu 2007. Það virðist því ljóst að bæjarfélögin eru búin er að ráðstafa fé til verkefnisins eins og kemur fram í viljayfrlýsingunni frá 20. maí. Þá hafa stjórnendur bæjarfélaganna ítrekað líst yfir vilja til áframhaldandi stuðnings við GKG varðandi uppbyggingu, framkvæmdir og rekstur.

 

Sú teikning af æfingahúsi sem stjórn klúbbsins hefur nú lagt inn til bæjarfélaganna til samþykktar gerir ráð fyrir 60 útibásum á þremur hæðum með upphituðum gólfplötum og sjálfvirkum dælubúnaði fyrir golfbolta af fullkomnustu gerð. Hluti æfingabása á jarðhæð verða með hurðum til nota fyrir sérhæfða kennsu s.s. fyrir afrekskylfinga, börn og unglinga. Inniæfingaaðstaða verður um 500 m2 auk vinnuaðstöðu fyrir kennara, fyrirlestraraðstöðu, sérkennsluaðstöðu og sérrými fyrir fullkominn tæknibúnað. Þá er gert ráð fyrir veitingaaðstöðu á efri hæð auk þess sem innangengt er í húsið af efri hæð að sunnanverðu í námunda við 8. flöt. Gólfflötur æfingahúsnæðisins er samtals um 1.200m2. Mikil og góð undirbúningsvinna liggur að baki þeirri vinnu og er það álit þeirra sem að undirbúningi hafa staðið að hér sé um að ræða eitt glæsilegasta æfingahús sem völ er á hér á landi og þó víðar væri leitað. Áætlaður kostnaður við bygginguna er um 220 milljónir auk kostnaðar við lagfæringu lendingarsvæðisins.

 

Golfklúbbur GKG hefur um árabil verið í fararbroddi og í raun í algjörum sérflokki hvað barna og unglingastarf varðar. Á árinu 2005 var klúbburinn fyrstur íslenskra golfklúbba til að taka á sínum innri málefnum varðandi þessi mál og hlaut viðurkenningu ÍSÍ sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Þessi vinna kallaði á gríðarlega naflaskoðun á öllum sviðum en þó sérstaklega á sviði barna og unglingastarfs, forvarna og utanumhalds á því sviði. Í dag eru um þrjúhundruð börn sem stunda golf hjá GKG sem félagsmenn og má því vera ljóst að gríðarlega áríðandi er að búa þessum börnum og unglingum viðunandi aðstöðu til þess að iðka íþróttina sómasamlega.

 

Nú eru liðnir 9 mánuðir frá undirritun viljayfirlýsingarinnar og hefur sú meðganga gengið tiltölulega hægt að mati þeirra sem unnið hafa að málinu hjá GKG. Innan stjórnar GKG er þess beðið með mikilli eftirvæntingu að framkvæmdir við æfingahús og æfingasvæði klúbbsins geti hafist sem allra fyrst þar sem hver dagur er dýrmætur. Vorið nálgast óðfluga og því áríðandi að niðurstaða fáist á allra næstu dögum. Áætlað er að bygging æfingahússins taki um 9 mánuði og verði því fullbúið fyrir lok þessa árs.