Það skiptir máli að þekkja golfreglurnar, oft getur maður sparað sér högg og sótt sér lausnir innan lagarammans sem aðrir koma ekki auga á sem eru ekki með þau mál á hreinu. Hér á eftir er skemmtileg þraut sem hann Hilmar Guðjónsson dómari setti saman:
Vinirnir Kalli og Siggi ákváðu að taka þátt í golfmóti. Þeir voru bara tveir í síðasta ráshópnum. Siggi átti að byrja og sló langt högg sem endaði á miðri braut. Kalli slær næst og er það vindhögg, þegar hann ætlar sér að slá aftur, þá stöðvar Siggi Kalla og bendir á að hann hafði tíað upp fyrir framan teig. Að þessu sinni tíar Kalli boltann sinn upp innan teigs og slær síðan ágætis teighögg sem endar til hliðar við brautina í þykku grasi c.a. 15 m styttra en höggið hans Sigga. Siggi brosir og segir við Kalla að það hefði nú verið betra fyrir hann að nota tí með stefnuvísi eins og hann gerði, þá hefði hann líklega hitt brautina.
Kalli gengur að þar sem boltinn á að vera og telur sig hafa fundið réttan bolta og slær næsta högg mjög stutt inn á brautina og er ekki enn búinn að ná Sigga, Kalli gengur að boltanum og ætlar að slá en sér þá að þetta er ekki hans bolti. Þeir félagar fara nú báðir og leita að rétta boltanum og finna hann fljótlega og staðfest er að það sé rétti boltinn. Nú er farið að sjóða á Kalla og tekur hann ógurlega á sjö trénu og slær þetta fína högg inn á flötina. Siggi slær sinn bolta líka inn á flöt og báðir nota tvö pútt til að klára holuna. Siggi gefur upp að hann hafi verið á 4 höggum en Kalli á 6 höggum. Siggi var ekki sáttur við þessa niðurstöðu hjá Kalla, taldi að höggin hlytu að vera fleiri en hann hefði ekki nægja þekkingu til að geta fullyrt hvað ætti að skrá á skorkortið og vildi fá dómara til að fara yfir málin.
Hvernig verður úrskurður dómarans um skor þeirra félaga eftir að hafa fengið allar upplýsingar um leik þeirra á þessari holu.
Takið þátt í umræðunni á facebooksíðu GKG.