Í framhaldi af því að við settum út fréttina um tilraun um að fá Vífilsstaðatúnin undir golfvöll árið 1967, þá fengum við eftirfarandi sögu frá honum Bjarna Richter.

Ég og félagi minn Arnar Haukur Ottesen vorum ungir drengir (líklega 1978 eða 1979, þá um 14 ára), þá fann ég hálft sett af John Letter kylfum sem pabbi hafði keypt í bráðræði einhverntímann snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Hann hafi keypt notað sett af vini sínum en spilaði þó aldrei neitt að ráði (líklega einn eða tvo hringi í Grafarholti að eigin sögn).

Þessi undarlegu verkfæri vöktu athygli okkar og þar sem við bjuggum í Garðahreppi á þessum tíma, þá fannst okkur nærtækast að prófa þessar græjur á Vífilstaðatúnunum, enda bjó ég þá í Ásbúð.

Skömmu áður hafði kúabúið á Vífilsstöðum verið lagt niður, en enn voru túnin heyjuð líklega tvisvar, ef ekki þrisvar yfir sumarið. Nýttum við þá tækifærið, eftir slátt, og prófuðum kylfurnar með afar misjöfnum árangri enda höfðum við litla hugmynd um hvernig ætti að bera sig að. En okkur þótti þetta mjög skemmtilegt, þannig að við lögðum út einar fjórar brautir sem að við spiluðum reglulega fram og tilbaka þar til of loðið var orðið. Þá biðum við eftir næsta slætti. Holurnar lágu nokkurn veginn eins og sést á myndinni hér að ofan (bláar örvar).

Þetta var ekki mjög vinsælt hjá bústjóranum á Vífilstöðum, sérstaklega áður en búið var að hirða eða eftir að búið var að bagga, því við þurftum oft að henda böggum til hliðar svo hægt væri að spila golf. Því þurftum við iðulega að vera á varðbergi og um leið og við sáum til Landrovers bústjórans bruna af stað niður túnin við Vífilsstaði, þurftum við að láta okkur hverfa hið snarasta.

Þessi íþróttaiðkun okkar hvissaðist út í vinahópnum og fengu sumir að vera með (vorum þó alltaf bara með þetta hálfa sett). Meira að segja feður okkar spreyttu sig. Ef ég man rétt, þá höfum við líklega stundað þetta í ein þrjú sumur og fengum það mikinn áhuga á golfinu að við Arnar gengum loksins í GR er við vorum um tvítugt. Við vorum einnig með á stofnfundi Golfklúbbs Garðabæjar, 1986 og notuðum okkur æfinganetin sem þá voru sett upp við núverandi Fjölbraut Garðabæjar.

Ég held að það megi segja um flesta þá sem prófuðu að spila með okkur á Vífilstaðatúninu að þeir urðu einnig golfarar síðar meir.

Hugsanlega var þetta í fyrsta sinn sem golf var spilað á Vífilstaðatúnunum.

Það er virkilega gaman að fá sögur sem tengjast golfiðkunn á svæðinu okkar sem og myndir og annað frá kylfingum sem gaman er að eiga og birta.