Gunnlaugur Árni Sveinsson afrekskylfingur í GKG sigraði á The Blessings Collegiate Invitational – en mótið er hluti af keppni í efstu deild NCAA háskólagolfsins í Bandaríkjunum.

Gulli hóf nám í haust í Louisiana State University í Baton Rouge (LSU) háskólanum og er hann á fyrsta ári sínu með liðinu.

LSU háskólinn býr yfir mikilli íþróttahefð og hefur um árabil verið meðal fremstu háskóla í golfi. Þekktasti kylfingurinn er án efa David Toms, margfaldur meistari á PGA mótaröðinni og liðsmaður í Ryder og Presidents liðum Bandaríkjanna. Sam Burns var einnig í skólanum en hann er ofarlega á heimslistanum í dag.

Fótboltalið skólans er meðal þeirra fremstu í Bandaríkjunum og sænski/bandaríski heimsmethafinn í stangarstökkvi, Armand Duplantis ólst upp í Lafayette sem er í næsta nágrenni og gekk svo í LSU áður en hann gerðist atvinnumaður.

Mótið sem Gunnlaugur Árni vann var það þriðja sem hann tekur þátt í á tímabilinu. Þetta var í annað sinn sem Gulli  var í sigurliði á háskólamóti – og í fyrsta sinn í einstaklingskeppni.

Landsliðskylfingurinn lék frábært golf en hann lék hringina þrjá á 71-67- 71 eða 7 höggum undir pari vallar í Fayetteville, Arkansas. Gunnlaugur Árni sigraði með þriggja högga mun en liðsfélagi hans Algot Kleen frá Svíþjóð lék á -4 samtals en hann lék lokahringinn á 63 höggum eða -8.

Karlalið LSU sigraði með yfirburðum í liðakeppninni.

Smelltu hér fyrir lokastöðuna:

Gulli er fyrsti íslenski kylfingurinn sem leikur með LSU háskólaliðinu í golfi en næsta haust mun Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR hefja nám við LSU.

Þetta er stórkostlegur árangur, til hamingju!