Mánudagurinn 12. september 2011 rann upp bjartur og fagur og mættir voru í úrslitaleik holukeppni GKG árið 2011 fulltrúar tveggja kynslóða, Ari Steinn Skarphéðinsson, 19 ára menntaskólanemi og Gunnlaugur Sigurðsson, unglingur á áttræðisaldri og formaður GKG 1996-2005.

Leikurinn fór vel af stað, báðir leikmenn að vísu nokkuð stressaðir, en léku þó af yfirvegun og skynsemi. Unnu þeir holur á víxl og var allt jafnt eftir 6 holur. En þá fór að síga á ógæfuhliðina fyrir Ara Stein og var Gunnlaugur kominn með mjög vænlega stöðu eftir 10 holur. Úrslitin réðust síðan á 15. braut, sem Gunnlaugur vann nokkuð örugglega og átti þá 4 holur og aðeins 3 eftir.

Á myndinni má sjá þá félaga á 15. flöt að leik loknum og er létt yfir þeim félögum. Gunnlaugur hafði á orði að þetta hefði líklega verið hans seinasta tækifæri til þess að vinna hinn eftirsótta titil „Holumeistari GKG“, en Ari Steinn var bara brattur þar sem hann getur vonandi gert a.m.k. 50 tilraunir enn til að vinna titilinn. Ef til vill fetar hann bara í fótspor Gunnlaugs og stendur uppi sem sigurvegari þegar hann kemst á áttræðisaldur!