Hátíðarkylfingur GKG er enginn annar en Fannar Aron Hafsteinsson verslunarstjóri Golfverslunar GKG
 
Hvað segir GKG-ingurinn Fannar Aron Hafsteinsson?
 
Það vita það ekki allir að flotti verslunarstjóri GKG er Sunnlendingur sem lætur sig ekki muna um að ferðast frá Selfossi flesta daga til að taka þátt í að skapa hinn einstaka GKG anda. Fannar er 29 ára nýbakaður faðir með 12 í forgjöf og í bland við foreldrastarfið og jólaundirbúninginn er þessi glaðlegi meistari að gera allt klárt fyrir okkur í búðinni fyrir næsta golfsumar …. og haldið ykkur, hann uppljóstrar hér hvaða litir verða heitastir í outfittinu golfsumarið 2021.
Jóla GKG-ingurinn Fannar Aron Hafsteinsson ætlar að gefa okkur innsýn í golfarann í sér.
 
Hvað dró þig að golfinu?
Ég átti það til að skutlast á strandarvöllinn á Hellu þegar ég var krakki en spilaði svo ekki golf í langan tíma. Eitt sinn fórum við nokkrir félagar frá Hvolsvelli út að skemmta okkur saman, eins og gengur og gerist, nema að í eftirköstum gleðskaparins daginn eftir skelltum við okkur í golf. Þar kviknaði hjá mér manískur áhugi á sportinu og eftir það var ekki aftur snúið.
 
Hvers vegna valdirðu GKG?
Ég og kærastan mín vorum að flytja til Reykjavíkur og mig vantaði vinnu. Svo heppilega vill til að hann faðir minn vinnur á verkstæðinu hjá GKG, ég fékk vinnu hjá Gumma vallarstjóra og vann hjá honum úti á velli í eitt sumar. Í framhaldinu sótti ég um vinnu í proshop og kynntist nýrri hlið á klúbbnum undir stjórn Sindra fyrrverandi verslunarstjóra. Ég var orðinn heillaður af metnaði og félagsanda GKG þegar ég svo tók við verslunarstjórastöðunni af Sindra. GKG er klárlega flottasti klúbbur sem ég hef komið að og það er gaman að vera partur af þessu starfi.
 
Mýrin eða Leirdalur?
Mér finnst gott að geta skottast 9 holur eftir vinnu þannig að ég segi að Mýrin sé meira að mínu skapi.
Stóðu vellirnir undir væntingum þínum golfsumarið 2020?
Já ekki spurning. Gummi og co hafa unnið frábært starf með völlinn.
 
Hvað stóð upp úr hjá þér eftir sumarið?
Ég náði að slá boltann upp úr bönkernum fyrir aftan grín á elleftu holu án þess að skalla hann yfir grínið eða festast í bönkernum sjálfum. Það gerðist annars lítið í golfinu hjá mér í sumar þar sem að fjölskyldan mín stækkaði og forgangsröðunin varð önnur en 2021 verður golfárið mikla hjá mér ?
 
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?
Úff ekki lítið erfið spurning. En ég ætla að spila þetta safe og segja staffið sem vinnur með mér í búðinni.
 
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?
Aftur erfið spurning. En ætli það sé ekki þegar ég drive-aði inná grín á 11 braut á Keili. Dró höggið langt til vinstri outofbounds en með mikilli lukku fór boltinn í stóran stein og skoppaði inná grín. Hefði viljað enda þessa braut á erni eða fugli en þurfti að sætta mig við par.
 
En það vandræðalegasta?
Það er margt sem hefur gerst, langar að segja frá einu en finnst það ekki viðeigandi haha. Þannig að ég segi þegar ég náði að snúa uppá fína wedge-inn í kringum golfsettið í reiðiskasti.
 
Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt?
Ég er ekki mikið í mótum en hef mjög gaman af ljósamótinu.
 
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
Það er 10. holan á Leirdalnum, einfaldlega af því að mér gengur vanalega vel á henni.
 
Uppáhalds holan þín á Mýrinni?
Það er fyrsta brautin og af sömu ástæðu og með tíundu á Leirdalnum, mér gengur vanalega vel á henni.
 
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?
Það er heimavöllurinn á Hellu.
 
Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?
Að sjálfsögðu nota ég hermana. Það gefur manni mikinn skilning á hvað er rétt og rangt í sveiflunni. Svo er ekki verra að geta spilað golf allt árið og hvað þá Leirdalinn.
 
Hver er uppáhaldskylfan?
Ég á erfitt með að velja á milli Ping driversins eða Nike 3 hybrid kylfunnar minnar. Þessar tvær kylfur gera það sem þarf og það er að slá langt og beint.
 
Áttu þér fyrirmynd í golfinu?
Það er nefnilega svo merkilegt að um leið og ég get sagt að golf sé aðal áhugamálið mitt þá fylgist ég hins vegar lítið sem ekki neitt með golfi og vil meina að það að horfa á golf sé ekki fyrir fólk með athyglisbrest. Þannig að ég ætla að vera boring og segja Tiger.
 
Hvernig nestar þú þig út á golfvöll?
Ég vil helst hafa Powerade, flatköku og súkkulaðistykki en svo kemur alltof oft fyrir að ég gleymi nestinu.
 
Hver verður aðal liturinn í verslun GKG næsta sumar?
Konuliturinn í fötunum verur ocean blue og karlaliturinn khaki grænn!
 
Hvað er lang, lang best við GKG?
Velja eitthvað eitt er varla hægt. Þannig það besta er……………………………….Proshop GKG ?