Í nýliðnu meistaramóti GKG gerðist sá fáheyrði atburður að keppandi í flokki karla 70 ára og eldri lék seinasta hringinn á 78 höggum. Er sá glæsilegi hringur kannski ekki í frásögur færandi nema ekki væri fyrir þá staðreynd að kylfingnum sem það tókst, Hauki V Bjarnasyni, er 79 ára gamall (elsti keppandinn á meistaramótinu) og fyllir áttunda tuginn í haust. Haukur afrekaði sem sagt að „sigra eigin aldur“ með einu höggi. Er hann í tiltölulega fámennum hópi sem það hafa afrekað og vildi gkg.is heyra í kappanum og forvitnast aðeins um golfið og hann.
Haukur er mörgum GKG-ingum að góðu kunnur enda er hann fastagestur á golfvöllum klúbbsins. Hefur hann leikið golf í 9 ár, eða frá 1999 þegar hann fór á golfkynningu með Seðlabankanum. Fékk hann þar að slá nokkra bolta og leist karli svo vel á að hann prófaði að spila og ekki var að sökum að spyrja, ári síðar var hann orðinn forfallinn kylfingur.
Aðspurður segist hann aldrei hafa litið til kennara en hafi þó fengið tilsögn til að byrja með frá félaga sínum Kristjáni Péturssyni. Haukur segist ekki æfa mikið fyrir utan hans föstu tíma með félögunum, en þeir spila 9 holur fjórum sinnum í viku. Þrátt fyrir að æfa ekki mikið lætur árangurinn ekki á sér standa en Haukur hefur lækkað forgjöf sína gífurlega undanfarið, var með 20,7 í byrjun sumars en er nú kominn niður í 15,1 og eitthvað hefur hringurinn frægi úr meistaramótinu hjálpað þar – 45 punkta hringur hvorki meira né minna.
Haukur hefur alla tíð verið mikill íþróttamaður og spilar það eflaust stóra rullu í þeim árangri sem hann hefur náð í golfinu. Þegar hann er inntur eftir því hvernig stendur á því að forgjöfin sé svona í frjálsu falli – án mikilla æfinga – stendur ekki á svarinu: fótboltinn og pútterinn. Haukur þakkar árunum hans í knattspyrnunni fyrir góðu sveifluna sína en hann lék í ellefu ár í fyrstu deild með Fram, auk þess að vera viðriðinn íslenska landsliðið í knattspyrnu frá 1948 til 1956. Hinn þátturinn í árangrinum, að mati Hauks, er nýji pútterinn sem hann fékk sér fyrir stuttu. Tók hann sig til að fleygði gamla pútternum sínum og fékk sér nýjan langan pútter, svokallaðan hökupútter og er í sjöunda himni með hann – hefur aldrei púttað betur.
Haukur er vitanlega mikill keppnismaður og sigurvegari, en fyrsta golfmótið sem hann tók þátt í var einmitt meistaramót GKG árið 2002. Gerði okkar maður sér lítið fyrir og sigraði sinn flokk það árið og hefur gert það samtals þrisvar sinnum, að sigrinum í ár meðtöldum. Sjálfur tekur Haukur alfarið fyrir að hafa verið með fiðring í maganum á 18. teig lokadaginn á meistaramótinu í ár, hafði hann ekki hugmynd um að hann væri að keppa við eigin aldur og var það í raun ekki fyrr en nokkrum dögum seinna að félagi hans benti honum á afrekið. Haukur segist aðeins hafa verið með það í huga á teignum að fá gott par, en hann var svekktur eftir að hafa farið 17. holuna á tvöföldum skolla. Ekki var það þó raunin viku fyrr en hann fór þá braut á einu höggi þann 1. júlí síðastliðinn eftir glæsilegt högg með níunni. Honum brást þó ekki bogalistin aftur á þeirri átjándu og fékk auðvelt par, 78 högg staðreynd og titlinum í flokki karla 70 ára og eldri fagnað.
Nú er spurning aðeins sú hvort að Haukur nái þessum árangri aftur og verður það að teljast líklegt, því forgjöfin er á hraðleið niður og okkar maður verður áttræður í haust og kemur án efa til með að stunda golfið í mörg, mörg ár í viðbót.
Mynd: Haukur með nýja pútterinn:
Mynd: Haukur tekur við verðlaununum fyrir meistaramótið