Hilmar Snær Örvarsson, þátttakandi fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum fatlaðra kom heim á mánudag eftir vel heppnaða för til Pyeongchang í Suður-Kóreu.
„Þetta er mikil upplifun og var mikið stærri viðburður en ég hafði reiknað með,“ sagði Hilmar Snær í viðtali við mbl.is á dögunum.
„Keppendur voru mjög margir og alveg ótrúlegur fjöldi af sjálfboðaliðum að vinna í kringum mótið sem er sannarlega það langstærsta sem ég hef nokkurn tímann tekið þátt í,“ sagði hinn 17 ára gamli ólympíufari í sjöunda himni með þátttökuna. Hann er staðráðinn í endurtaka leikinn að fjórum árum liðnum.
Hilmar Snær var eini íslenski keppandinn á mótinu. Hann hafnaði í 13. sæti í svigi af 40 keppendum í standandi flokki hreyfihamlaðra, LW2, og hreppti 20. sæti í stórsvigi. „Ég er mjög ánægður með árangurinn. Fyrir utan að ég gerði lítils háttar mistök í fyrri ferðinni í sviginu, seinni keppnisgreininni minni á laugardaginn. Annars er ég mjög sáttur við mig,“ sagði Hilmar Snær sem var að taka þátt í sínu fyrsta stórmóti með stóru essi á ferlinum. Hann er jafnframt yngsti keppandi sem Ísland hefur sent á Vetrarólympíumót fatlaðra.
Hilmar segir aðstæður á keppnisstað hafa verið fyrsta flokks enda var hann byggður sérstaklega upp til þess að halda Vetrarólympíuleikana og vetrarólympíumótið en kröfur Alþjóðaólympíunefndarinnar til aðstæðna á mótum eru miklar. „Það var frábært að taka þátt.“
Hilmar Snær er ekki aðeins afreksmaður í skíðaíþróttinni, en hann hefur æft með keppnishópi GKG undanfarin ár og er kominn með 4,8 í forgjöf. Hann er svo sannarlega frábær fyrirmynd okkar allra og sýnir mikla þrautseigju, metnað og keppnisskap til að ná frábærum árangri í því sem hann tekur sér fyrir hendur.
Velkominn heim Hilmar Snær og sjáumst á vellinum í sumar!