Eitt skemmtilegasta mót sumarsins verður haldið laugardaginn 1. júní. Um er að ræða hjóna og parakeppni GKG.

Leikfyrirkomulagið er betri bolti m/forgjöf þar sem betra skor liðsins telur á holu, þetta er þó punktakeppni og þannig telja punktar þess sem fékk hærri punkta á holu. Um er að ræða innanfélagsmót en makar úr öðrum klúbbum eru þó velkomnir.

Ath. að við skráningu í mótið skal þess gætt  að ekki er hægt að nota golf.is til þess að halda utan um skráningu á liðunum. Því eru pör beðin um að skrá sig “lóðrétt” saman svo að liðaskipanin haldist út mótið. Þannig eru fjórir saman í holli, fyrstu tvö nöfnin gera þá eitt lið og síðustu tvö eru þá sér lið. Ef einhver vandamál verða ekki hika við að hringja í verslun GKG eða senda tölvupóst á yngvi@gkg.is.

Þar sem mótið er hjóna- og parakeppni, þá þarf að skilgreina betur hvað er átt við hvenær fólk er par.

Par þarf ekki endilega að vera kærustupar. Aðalatriðið er að parið séu góðir vinir, hafi skemmtun af því að spila golf saman og njóti þess að eiga fallega kvöldstund saman í þeirri stemningu sem einkennir hjóna- og parakeppni. Mótsstjórn áskilur sér rétt til, og mun dæma einstaklinga úr leik ef auðsjáanlega er verið að brjóta gegn framangreindu ákvæði.

Vinningshafar verða leystir út með flottum vörum frá UnderArmor, FootJoy, Ölgerðinni, Olís og Borgarleikhúsinu.

  1. sæti. Tvö skópör og fatnaður frá Under Armor, glaðningur frá Ölgerðinni, 20 þúsund króna inneign hjá Olís og tveir miðar á Borgarleikhúsið
  2. sæti. Föt frá FootJoy, glaðningur frá Ölgerðinni, 10 þúsund króna inneign hjá Olís og tveir miðar á Borgarleikhúsið
  3. sæti. Föt frá Under Armor, glaðningur frá Ölgerðinni og tveir miðar á Bortgarleikhúsið

Nándarverðlaun á öllum par 3 holum og annað höggið á 18. holu.

Það par sem giskar á réttan fjölda týndra golfbolta verður leyst út með glaðning frá FootJoy.

Og … rússínan í pylsuendanum, “samstæðasta best klædda parið” (huglægt mat viðburðarnefndar) fær glæsileg verðlaun frá Under Armor.

Hámarks forgjöf karla og kvenna er 36.

Verð á kylfing er það sama og í fyrra eða kr. 6.200,- innifalið í verðinu er:

  • Pörin fá að heyra uppáhaldslagið sitt á hringnum, sendið nafnið á laginu ykkar á yngvi@gkg.is
  • Hefðbundin myndataka í ramma á öll pör
  • Veitingavagn Mulligans verður á ferðinni á meðan á mótinu stendur
  • Ljúfir tónar frá Magga ræsi taka á móti okkur við upphaf kvöldverðar
  • Eðalkvöldmatur frá Mulligan teyminu, forréttur og aðalréttur.
  • Tískusýningahópur Jönu Geirs og Kaupfélags GKG brillerar í fötum frá UnderArmor og FootJoy
  • Skemmtilegasti GKG ingurinn hann Einar Guðmunds lætur gamangamminn geysa
  • Söngfuglar GKG leiða fjöldasöng undir stjórn meistara Elísabetar Harðar
  • Opna sviðið verður galopið
  • Eftir borðhald munum við skemmta okkur fram í rauða nóttina þar sem Suðurnesja-DJarnir Stache&Beard sjá um fjörið í boði Mulligan https://www.facebook.com/stacheogbeard/?epa=SEARCH_BOX

 

Mótsstjórn og viðburðarnefnd