Hlynur Þór Haraldsson, barna- og unglingaþjálfari GKG, hefur ákveðið að láta af störfum sem þjálfari hjá GKG. Hlynur, sem sjálfur var afreksunglingur hjá GKG, hefur starfað hjá klúbbnum síðan 2010 sem barna- og unglingaþjálfari, við miklar vinsældir og góðan orðstír. Það er því mikill missir að honum úr GKG hópnum.

Fyrir hönd stjórnar, starfsfólks og ekki síst allra þeirra sem Hlynur hefur þjálfað, eru honum þökkuð kærlega vel unnin störf á undanförnum árum. Þá fylgja honum hugheilar óskir um áframhaldandi velfarnað í nýjum verkefnum sem hann tekst á hendur.

Í stað Hlyns hefur Haukur Már Ólafsson verið ráðinn til starfa. Haukur er uppalinn GKG-ingur, og hefur hann ásamt foreldrum og bræðrum verið hluti af GKG fjölskyldunni í mörg undanfarin ár. Hann leiðbeindi á barnanámskeiðum GKG í allmörg ár, og sl. sumar sem aðstoðarþjálfari á sumaræfingunum. Haukur er menntaður íþróttafræðingur og er nemi í íslenska PGA golfkennaraskólanum, þar sem hann mun ljúka námi eftir rúmt ár.

Við bjóðum Hauk hjartanlega velkominn til starfa og væntum mikils af honum.

F.h. stjórnar og starfsfólks,

Úlfar Jónsson, íþróttastjóri GKG