Við kynnum með miklu stolti Önnu Júlíu Ólafsdóttur, 21 árs gamlan meistarakylfing úr Kópavogi sem er með 1 í forgjöf, ólst upp með kylfurnar í GKG og er einn af afreks- og fyrirmyndarkylfingum klúbbsins. Anna Júlía er nú þegar búin að sanka að sér mikið af verðlaunum en hún er klúbbmeistari GKG 2021 og 2019, hlaut Háttvísisbikar klúbbsins 2019, vann Niðjamótið með pabba sínum 2020 og þau eru með pottþétt plan um að ná í þann bikar aftur í sumar! 

Anna Júlía lét drauminn um háskólagolf í Bandaríkjunum rætast, stundar nám í grafískri hönnun og markaðfræði í Purdue Fort Wayne í Indiana og keppir jafnframt fyrir golflið skólans sem er í NCAA division 1.  Íþróttalífið er stór þáttur í skólanum en hann er með 16 íþróttalið og 244 nemendur í þeim liðum. Mikil áhersla er á að íþróttafólkið taki námið alvarlega og skemmtilegt að segja frá því að lið Önnu Júlíu, kvennagolflið skólans fékk verðlaun fyrir besta námsárangur allra liða skólans á þessu ári þar sem meðal einkunn liðsins var 3.92 GPA (hæst gefið 4.0). Anna Júlía er að klára annað árið sitt úti í Indiana, er búin að keppa á 16 mótum af 16 á árinu og hefur gengið vel. Í sumar ætlar hún að njóta golfsins með vinkonum sínum í GKG og keppa fyrir hönd klúbbsins út á við. Til hamingju með sjálfa þig meistari Anna Júlía og njóttu sumarsins!

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?

Foreldrar mínir gáfu mér golfsett þegar að ég var lítil og komu mér út í golf. Ég fór á nokkur golfleikjanámskeið og ég fór síðan að æfa í framhaldinu. Áhuginn kviknaði af alvöru 13 ára þegar ég var valin í sveitakeppnina sem var ótrúlega skemmtileg. Ég er búin að vera með frábæra þjálfara í GKG, ég byrjaði hjá Hlyni, síðan Hauki og Derrick og loks núna með Arnari Má.

Hvers vegna valdirðu GKG?

Ég valdi GKG þar sem pabbi er í GKG og stutt að fara.

Hvernig ertu stemmd undir keppnissumarið framundan?

Ég er ótrúlega spennt og vel stemmd fyrir golfsumrinu!

Hver verða helstu mótin þín í sumar og hvert er leynivopnið þitt?

Ég ætla að keppa á GSÍ Mótaröðinni, Meistaramótinu og Sveitakeppninni. Síðan tökum við pabbi Niðjamótið í ár! Leynivopnið verður pútterinn sem kemur sterkur inn.

Mýrin eða Leirdalur?

Leirdalurinn.

Stóðu vellirnir undir væntingum þínum golfsumarið 2021?

Já!

Hvað stendur upp úr hjá þér eftir síðasta golfsumar?

Klárlega meistaramótið og Íslandsmótið á Akureyri. Við stelpurnar eyddum verslunarmannahelginni á Akureyri og náðum að taka marga æfingahringi fyrir mótið. 

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?

Lang skemmtilegast að spila með vinkonum mínum í GKG, Huldu, Maríu, Ölmu og Evu við myndum bjóða Árnýju með?

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?

Það var mjög gaman að vinna meistaramótið tvisvar, síðan er líka mjög skemmtilegt að keppa úti með skólaliðinu mínu.

En það vandræðalegasta? 

Man eftir nokkrum skiptum þegar ég var að keppa á Íslandsbankamótaröðinni í brjáluðu veðri á Hellu. Kerran mín datt nokkrum sinnum niður en einu sinni á 11. braut fauk hún niður og allt dótið mitt dreifðist út á grín. Það var ansi vandræðalegt en frekar fyndið núna.

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt?

Keppi alltaf á meistaramótinu, geggjuð stemmning!

Hvert er uppáhalds leikformið þitt?

Hef alltaf fundist holukeppni skemmtileg. Það getur allt gerst í holukeppni og svo mikil stemning á holukeppnismótum.

Hver eru bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina?

Bestu golfkaupin er örugglega pútterinn minn. Ætli verstu golfkaupin mín séu ekki nike golfskórnir sem að ég pantaði að utan… óvart í stærð 41 í staðinn fyrir 38.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?

Uppáhalds holan mín á Leirdalnum er 12. hola, gefur séns á að skora vel!

Uppáhalds holan þín á Mýrinni?

Uppáhalds holan mín á Mýrinni er 1. hola.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Uppáhalds vellirnir mínir fyrir utan GKG eru Oddur og Akureyri.

Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?

Já nota þá mikið, nýja inni aðstaðan er frábær.

Hver er uppáhaldskylfan?

Uppáhalds kylfan mín er 6 járnið mitt, járnhöggin eru uppáhalds höggin mín og ég legg oft upp með 6 járninu.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?

Ég hef alltaf litið upp til Huldu Clöru! Það er búið að vera svo gaman að sjá hana blómstra í gegnum árin.

Uppáhaldsnestið í golfpokanum?

Er oft með banana, epli, flatkökur eða samloku, orkustykki og eitthvað gott að drekka!

Hvað er lang, lang best við GKG?

Vinkonur mínar, allt fólkið og Arnar þjálfari.