Við í GKG erum afar stolt af okkar mikla og góða barna- og unglingastarfi, lífinu og fjörinu sem því fylgir allt árið um kring og öllum öflugu kylfingunum sem það metnaðarfulla starf er að skila af sér. Einn af þessum kylfingum er hún Árný Eik Dagsdóttir, 18 ára Garðbæingur með 3,8 í forgjöf.
Hvað dró þig að golfinu og hvenær? Ég byrjaði í golfi vorið 2015 og það var mamma sem dró mig í golfið. Sem barn hafði ég mjög gaman af því að vera með mömmu á vellinum og sérstaklega að keyra golfbílinn.

Hvers vegna valdirðu GKG? Þvi ég bý í Garðabæ og það er mjög stutt að fara.

Mýrin eða Leirdalur? Leirdalurinn allan daginn.

Stóðu vellirnir undir væntingum þínum sólarsumarið 2019? Já heldur betur.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? Úff þetta er erfitt. Ég myndi líklegast velja Ólaf Loftson, Birgi Leif og Dustin Johnson.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum? Örugglega þegar ég varð klúbbmeistari GKG árið 2018, það var frábær upplifun.

En það vandræðalegasta ? Þegar ég var að hita upp fyrir Meistarmótið þá var ég að skokka til að hita líkamann og datt á andlitið fyrir framan alla á æfingasvæðinu.

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt? Já ég reyni mitt besta til að taka þátt í mótum GKG þegar ég hef tíma. Uppáhaldsmótin mín eru örugglega Niðjamótið og Meistaramótið.

Texas Scramble eða Betri Bolta? Texas scramble.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum? Ég myndi segja 12. holan því það er hægt að spila holuna á svo marga mismunandi vegu og hún gefur góð tækifæri á að fá fugl.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni? 3. holan því hún er stutt hola sem gefur möguleika á góðu skori.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Vestmannaeyjavöllurinn er í miklu uppáhaldi.

Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin? Já ég nota golfhermana nánast daglega á veturna og þeir bjarga manni alveg þegar veðrið leyfir ekki að spilað sé úti. En samt finnst mér mun betra að sjá alvöru boltaflug.

Hver er uppáhalds kylfan? Dræverinn.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu? Nei í rauninni ekki, en held mikið upp á Dustin Johnson.

Hvernig nestar þú þig út á golfvöll? Ég er oftast með banana og eithvað grænmeti, eitt próteinstykki og eina góða samloku.

Hvað er lang, lang best við GKG? Félagsskapurinn og starfsfólkið, klárlega!