Landsliðsmaðurinn Aron Snær Júlíusson er 24 ára Garðbæingur með +3,7 í forgjöf sem talar í fuglum, örnum og holum í höggi þegar kemur að golfinu og þarf að fara mjög langt aftur til að finna vandræðalegt augnablik frá ferlinum. Enda er kappinn einn af frábærum afrekskylfingum og stolti GKG!  

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?

Ef ég man það rétt þá byrjaði eldri bróðir minn í golfi sem gerði það af verkum að mig langaði líka að prófa. Ég byrjaði því um 9 ára, en áhuginn kviknaði ekki fyrr en ég byrjaði að mæta á æfingar ásamt nokkrum strákum í fótboltanum nokkrum árum seinna.

Hvers vegna valdirðu GKG?

Afreksstarfið er notlega frábært og ég tel mig hafa verið með mjög góða þjálfara í gegnum árin. Það er líka ekki langt út völl þannig það er engin ástæða til þess að fara eitthvert annað.

Mýrin eða Leirdalur?

Leirdalurinn.

Hvað stendur upp úr hjá þér eftir síðasta golfsumar?

Ætli það sé ekki sigurinn í sveitakeppninni sem stendur upp úr ásamt sigri á GSÍ mótaröðinni og fínum árangri á Íslandsmótinu í höggleik.

Hvert er keppnis- og spilaplanið fyrir sumarið framundan og er leynivopnið klárt?

Planið er að reyna spila sem mest á Nordic league mótaröðinni í sumar, ef covid leyfir, ásamt því að spila á GSÍ mótaröðinni. Ég hef verið að vinna í púttunum með Hauki Má kennara núna í vetur, þannig að ætli leynivopnið í sumar verði ekki pútterinn.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?

Þetta er erfitt val. Þar sem það þarf alltaf að vera keppni í hollinu þá myndi ég velja Bjarka Pétursson sem félaga á móti Óla Lofts og Hlyni Bergs og spilað leikfyrirkomulagið „Róni“, sem er punktur fyrir besta skor, samanlagt og auka fyrir fugl.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?

Ætli það sé ekki eitthvað að þessum fjórum holu í höggi sem ég á. Ef ég ætti að velja á milli þeirra þá væri það líklegast í sveitakeppni í Borgarnesi þar sem ég sló fyrsta högg dagsins beint í holu á gömlu tíundu (önnur hola í dag). Boltinn flaug beint í holu og setti ég með því tóninn fyrir daginn þar sem andstæðingurinn átti litla möguleika.

En það vandræðalegasta?

Ég á voða fá vandræðaleg augnablik í golfinu. En til að nefna eitthvað þá var ég duglegur að æfa út í garði þegar ég var yngri. Mamma og pabbi voru búin að segja að ég mætti bara slá með plastboltum en ekki alvöru boltum. Ég tók það nú ekki í mál og stalst nokkrum sinnum með alvöru bolta út í garð. Eitt kvöldið var ég að æfa ásamt yngri bróður mínum út í garði og ákvað ég að taka nokkur högg með alvöru boltum. Í einu högginu hitti ég boltann það vel að hann flaug um 40 metra yfir nokkur há tré, lenti á stétt og þaðan í gegnum glugga hjá nágrannanum. Ég áttaði mig alveg á hvað hafði gerst en ég ætlaði sko ekki að láta mömmu og pabba vita. Þegar við bræðurnir komum svo inn var sá yngri ekki lengi að koma því út úr sér hvað hefði gerst. Pabbi fór þá með mig skömmustulegan til nágrannans til þess að skoða aðstæður ásamt því að biðjast afsökunar. En sem betur hafa óhöppin ekki verið fleiri og leiðin aðeins upp á við.

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt?

Ég reyni að taka þátt í sem flestum mótum, þar af Kristalsmótaröðinni. Uppáhaldsmótið er Meistaramótið þar sem ég hef getað verið alltof sjaldan með.

Hvert er uppáhalds leikformið þitt?

Mér finnst holukeppni vera frábær og þá sérstaklega fjórmenningur þegar ég spila í sveitakeppni og með landsliðinu.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
Sextánda brautin finnst mér frábær, teig höggið er krefjandi og með góðu teig höggi áttu möguleika á að reyna inn á í tveimur höggum. Það getur því margt farið úrskeiðis þegar maður reynir að sækja fuglinn eða örninn sem gerir hana að frábærri holu að mínu mati.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni?

Sjöunda  brautin á Mýrinni er mjög góð, teig höggið þarf að vera gott ásamt inn á högginu þar sem grínið er langt og mjótt. Það getur því verið mikilvægt að hitta brautina ef maður ætlar að eiga möguleika á fugli.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Hérna heima er það Jaðarsvöllur á Akureyri og erlendis er það The Island Golf Club á Írlandi, mæli með honum ef fólk er á ferðinni á Írlandi.

Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?

Já ég nota golfherma, upplifunin er góð þar sem þetta er frábært æfingar- og leiktæki yfir vetrartímann. Æfingar fyrir vikið verða því skemmtilegri og betri sem gerir það að verkum að maður er betur undirbúinn þegar maður kemst svo loks út á grasið.

Hver er uppáhaldskylfan?

56 gráðurnar er í uppáhaldi þar sem mér finnst ekkert skemmtilegra heldur en að æfa pitch. Hún er líklegast sú kylfa sem er hvað mest notuð í pokanum hjá mér og því við hæfi að hún sé í uppáhaldi. Ég nota hana í höggum frá 60 til 90 metrum ásamt því að nota hana í kringum grínin.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?

Já, Birgir Leifur þegar ég var yngri, svo finnst mér Ólafur Loftsson líka vera frábær fyrirmynd. Ég hef lært margt af Óla á seinustu árum þegar það kemur af leikskipulagi og metnaði fyrir leiknum. Það kæmi mér í raun ekkert á óvart ef hann myndi gera flotta hluti með landsliðið á næstu árum þar sem það er erfitt að finna mann með meiri metnað.

Hvernig nestar þú þig út á golfvöll?

Ég er oftast með rúnstykki eða flatkökur, skyr eða ab-mjólk og svo orkustykki.

Hvað er lang, lang best við GKG?

Barna- og afreksstarfið myndi ég segja að væri það sem stendur upp úr hjá GKG. Það er líka frábært starfsfólk í klúbbnum og mjög heimilislegur andi þótt að klúbburinn sé stór.