Ef þið hafið ekki tekið golfhring með GKG-ingi vikunnar, í keppni eða bara á góðum degi, þá hafið þið klárlega séð til þessa flotta kylfings, ef ekki að spila þá að æfa golf. Úti eða inni í stutta og langa spilinu, nú eða að þið hafið teygt með henni í golfjóga hjá Birgittu. Beta er nefnilega einn af öflugustu kylfingum GKG þegar kemur að þessu öllu og ekki einungis það heldur er hún líka okkar helsta fyrirmynd þegar kemur að umhverfisvænum lífsstíl! Við kynnum til leiks flotta vinstri handar kylfinginn Elísabetu Böðvarsdóttur, 62 ára Garðabæing með 13,1 í forgjöf.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær? Stuttu upp úr aldamótum reyndi kunningi minn að fá mig til að slá nokkra bolta í Básum en ég fór heim með golfolnboga eftir að hafa lamið mottuna óheyrilega með hægrihandar 9 járni með stálskafti. Ég reyndi svo ekki aftur fyrr en sumarið 2007 og þá með vinstri handar kylfum. Fór svo um haustið til Valle del Este á námskeið með allt 4 kylfur og pútter og þá var ekki aftur snúið.

Hvers vegna valdirðu GKG? Ég fékk fyrsta árgjaldið í jólagjöf og hef ekki pælt í að skipta.

Mýrin eða Leirdalur? Mýrin til að æfa járnin en Leirdalur til að spila alvöru hring. Báðir góðir og krefjandi.

Stóðu vellirnir undir væntingum þínum sólarsumarið 2019? Já, nema flatirnar voru helst til loðnar fyrri hluta sumars.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? Mér er nokkuð sama með hverjum ég spila en til að vera hjátrúarfull í þessu er best að velja tvo snillinga. Síðastliðið sumar náði ég því einu sinni að spila seinni 9 holurnar á 35 höggum og þá bættist Helgi Róbert við í hollið á 13. braut og spilaði með okkur það sem eftir var. Svo bættist Gunnar Páll eitt sinn í hollið hjá mér og Steina á 13. braut og þá spilaði ég þær 6 holur sem eftir voru á pari. Utanfélagsmaðurinn væri svo Ólafía Þórunn en ef ég má velja útlending þá vel ég Rory Mcllroy.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum? Um daginn tók ég þátt í móti í Leirunni. Á Bergvíkinni dró ég fyrsta höggið út í sjó. Sló svo annan bolta og dró hann líka en ekki alveg eins mikið svo að hann rétt slefaði yfir grjótvegginn og inn á grín en svo rúllaði hann út í kragann um 12 metrum fyrir ofan holu. En það skemmtilega var að púttið/vippið fór í.    

En það vandræðalegasta ? Fyrst Leiran er komin í umræðuna þá má segja frá því að þar sló ég bolta í stein fyrir framan mig en hann kom til baka og lenti rétt fyrir ofan efri vörina á mér. Þar sem sársaukin var talsverður þá ákvað ég að kæla blettinn og hélt púttershausnum að svæðinu það sem eftir var af hringnum nema rétt á meðan ég var að slá þau högg sem eftir voru. Þetta var á annarri holu. Ég var komin með ágætis lúður þegar ég kom í skála þrátt fyrir kælinguna. 

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt? Já ég hef t.d. tekið þátt í Meistaramótinu frá 2009 og þá með yfir 30 í forgjöf. Einnig hef ég spilað alla 7 dagana í meistaramótinu. Fyrstu 3 dagana í Öldungaflokki og síðan 4 daga í 1. flokki. Já meistaramótið er skemmtilegasta mótið.

Texas Scramble eða Betri Bolta? Betri bolti.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum? Ég elska að hata 16. brautina. Hvers vegna? Fullt af hættum á þessari braut. Eftir breytinguna í sumar hef ég þurft að sleppa drævernum í upphafshögginu til að fara ekki í skurðinn, svo styttingin breytir ekki miklu fyrir mig.  

Uppáhalds holan þín á Mýrinni? Erfiðar holur eru alltaf skemmtilegri en léttar. 7. holan á Mýrinni er ein erfiðasta par 4 holan hér heima og getur refsað hressilega. Hvers vegna? Með því að spila hana sem par 5 er alltaf séns á að ná henni á 4 og stundum dettur einn og einn fugl.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Hér heima er það sennilega Oddurinn eða Öndverðarnes ef aðeins 18 holu vellir telja en Brautarholtið er líka mjög skemmtilegur völlur en hann er bara 12 holur sem er jú alveg nóg, en erlendis vel ég La Galiana í Valencia á Spáni

Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin? Já. Mér finnst flott að hafa þennan möguleika sérstaklega yfir vetrartímann. Alveg frábært að geta spilað hina og þessa frægu velli og spennandi viðbót að fá Leirdalinn inn líka. Æfinga möguleikarnir eru líka góðir en smá mál að læra á það svo það nýtist almennilega. Eini gallinn er plássleysið á fremra svæðinu sem veldur því að við fatlafólin (örvhentir) þurfum alltaf að stilla herminn svo við náum að standa innan teigsins en erum jafnvel þá í hættu frá þeim sem er í næsta bás.

Hver er uppáhaldskylfan? 60°.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu? Haha örugglega.

Hvernig nestar þú þig út á golfvöll? Vatn og brauðsneið með smjöri og osti, ekki í plasti.

Hvað er lang, lang best við GKG? Kvennastarfið og 50+ konurnar, og svo allir hinir.