GKG-ingar eru einstaklega öflugir í sjálfboðaliðastarfi klúbbsins sem skartar til dæmis frábæru öldungastarfi. Ein af sprautunum í því starfi er Elísabet Þórdís Harðardóttir, fædd á því herrans ári 1953 og á því stórafmæli á þessu ári. Svo gustar heldur betur dásamlega af þessum meistara í undirleiknum á píanóinu eða nikkunni þegar GKG-ingar gera sér dagamun og eins þegar hún setur sig í golfjógastellingar með félögum sínum. Elísabet Þórdís býr í Garðabæ, er með 25,4 í forgjöf í dag og eitt af hennar stóru afrekum er hola í höggi, sem hún afrekaði löngu á undan karlinum sínum, honum Einari Tómassyni. Það var líka löngu áður en yfir hana rigndi heillaóskum út af erninum á fyrstu braut á Leirdalnum en meira um það hér á eftir ? Innilega til hamingju með stórafmælis áfangann Elísabet Þórdís og megirðu eiga frábært stórafmælis golfsumar!
Hvað dró þig að golfinu og hvenær?
Það var í kringum árið 2000 þegar ég fór að elta kallinn á golfvöllinn.
Hvers vegna valdirðu GKG og hvort er Mýrin eða Leirdalur þinn völlur?
Klúbburinn er í næsta nágrenni við heimilið og því lá það beinast við að ganga í GKG. Mér finnst báðir vellirnir góðir, en spila þó meira Mýrina.
Hvert er uppáhalds leikformið þitt, hver er uppáhaldskylfan þín og áttu þér fyrirmynd í golfinu?
Texas scramble er uppáhalds leikformið og uppáhaldskylfan er 6 hybrid, hana nota ég mest á brautum. Fyrirmyndin er Tiger Woods.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?
Fór holu í höggi, langt á undan kallinum. Þetta var á 2. braut í Borgarnesi árið 2009.
En það vandræðalegasta?
Það var þegar ég gleymdi að fara yfir skorkortið eftir hring á Leirdalnum. Þetta gerðist eftir að nýbyrjað var að skrá skorið í síma. Ég skildi ekkert í því að yfir mig rigndi hamingjuóskum með örninn á 1. braut. Þetta var mjög vandræðalegt.
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
Ellefta brautin, par 3, er mín uppáhaldsbraut. Þar hef ég oft náð góðu spili.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni?
Það er þriðja brautin, par 4.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?
Í draumahollinu eru allir synir mínir en þeir eru Hörður og Einar Ólafur sem eru að sjálfsögðu báðir í GKG og steinsmiðurinn Tómas sem er ekki í klúbb.
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?
Skeggjabrekka á Ólafsfirði og völlurinn á Húsavík.
Hver er upplifun þín af golfhermum GKG?
“Skellurnar” mæta saman í golfhermana einu sinni í viku, upplifunin er mjög góð og skilar sér í bættum árangri.
Hvernig var síðasta golfsumar hjá þér og hvernig leist þér á GKG vellina það sumarið?
Golfsumarið var mjög gott, við “Skellurnar”(sem er félagsskapur heldri kvenna) tókum þátt í liðakeppni o.fl. sem var mjög gaman og áhugavert. Vellirnir eru fínir og eru alltaf að batna. Ég er sérstaklega hrifin af breytingunni á 16. braut á Leirdalnum.
Ætlarðu að vera með í Meistaramóti GKG í sumar og ef svo, hverjar eru væntingarnar fyrir mótið og áttu einhver leynitrix fyrir okkur hin?
Ég stefni á að taka þátt í Meistaramótinu næsta sumar og ætla mér stóra hluti. Leynitrixið er nú bara að njóta og hafa gaman.
Ertu með einhver önnur plön og væntingar inn í golfsumarið framundan?
Ég stefni á að vera duglegri að æfa, væntingarnar snúa að því að vera betri í dag en ég var í gær.
Uppáhaldsnestið í golfpokanum?
Vatn og banani.
Hvað er helst um að vera hjá öldunganefnd GKG í sumar?
Dagskráin hefur ekki verið opinberuð þegar þetta er skrifað en ég get sagt að það verða mót í hverjum mánuði, heima og í öðrum klúbbum.
Hvað er lang, lang best við GKG?
Skemmtilegir klúbbfélagar, gott viðmót og fallegt umhverfi.