Garðbæingurinn Gunnlaugur Sigurðsson er mörgum GKG-ingum vel kunnugur, bæði af golfvellinum sjálfum en líka fyrir sitt langa og gjöfula starf fyrir klúbbinn. Við stofnun Golfklúbbs Garðabæjar gaf Gunnlaugur kost á sér til setu í stjórn og tók svo þátt í sameiningu Golfklúbbs Garðabæjar og Golfklúbbs Kópavogs árið 1994. Hann var fyrsti ritarinn í stjórn GKG og gegndi því starfi þar til hann tók við sem formaður klúbbsins tveimur árum síðar. Öflugt og metnaðarfullt starf hefur einkennt GKG frá upphafi og sem formaður klúbbsins leiddi Gunnlaugur þá vinnu farsællega í tíu ár, eða frá 1996 til 2005. Helstu uppbyggingarverkefnin í formannstíð Gunnlaugs og voru þau að:
- Ljúka við byggingu 18 holu Vífilsstaðavallar
- Fjármagna framkvæmdir
- Móta afreksstefnu
- Móta barna- og unglingastarfið
- Efla kvennastarfið
- Kynna GKG og fjölþætt starf klúbbsins
- Fjölga félögum
- Koma GKG í hóp bestu golfklúbba landsins í barna og unglingaflokkum og flokkum kvenna og karla
Af öllum þessum mikilvægu verkefnum í formannstíð Gunnlaugs er hann stoltastur af mótun afreksstefnunnar og af barna- og unglingastarfinu. Starfi sem hefur verið fylgt svo vel eftir í klúbbnum að í dag er það öflugast í golfheiminum öllum, eftir því sem við best vitum.
Við GKG-ingar þökkum Gunnlaugi kærlega fyrir hans góða frumkvöðlastarf fyrir flotta klúbbinn okkar!
Svo er komið að því að kynnast betur kylfingnum Gunnlaugi sem er 82 ára, var með grunnforgjöf 23,3 í haust og er með 10,9 í Trackman forgjöf. Sum sé, hörku heldri kylfingur sem stundar golfherma GKG grimmt yfir vetrartímann og tekur Vífilstaðavöllinn fram yfir Mýrina á sumrin. En hvernig byrjaði golfævintýrið hjá okkar manni? Gefum Gunnlaugi orðið.
Konan mín gaf mér hálft golfsett þegar ég varð 50 ára og vinir mínir gáfu mér golfpoka og golfkerru. Þá var ekki aftur snúið.
Stóðu vellirnir undir væntingum þínum golfsumarið 2021?
Báðir vellirnir hafa batnað mikið á seinustu árum og breytingar síðasta haust lofa góðu.
Hvað stendur upp úr hjá þér eftir síðasta golfsumar?
Að hafa náð að spila 18 holur gangandi alla þriðjudaga í allt sumar með Siglógolffélögum mínum. Auk þess að spila Mýrina og eða Vífilsstaðavöllinn af og til í hverri viku allt sumarið.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með?
Draumahollið mitt er Guðmundur Ólafsson, Haukur Bjarnason og Sigurður sonur minn.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?
Að fara holu í höggi á 17. braut á Leirdalsvelli í september 2012.
En það vandræðalegasta?
Vandræðalegu atvikin eru fjöl mörg en ég gleymi þeim alltaf þegar í stað.
Tekur þú þátt í GKG mótunum?
Ég tók þátt í flestum golfmótum klúbbsins frá byrjun í samfellt ca 15 ár. Þegar ég varð holumeistari GKG árið 2011 þá ákvað ég að hætta. Best er að hætta á toppnum?
Hvert er uppáhalds leikformið þitt?
Holukeppni.
Hver eru bestu eða verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina?
Ég hef ekki keypt mikið af golfvörum eða golfdóti á golfferlinum. En ég á of margar golfpeysur.
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
Það er auðvitað 17. brautin.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni?
Það er 7. brautin af því að hún er flottust og erfiðust.
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?
Grafarholtið.
Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?
Ég hef mikið notað golfhermana þegar frá byrjun. Frá því að golfhermarnir voru teknir í notkun hef ég spilað mjög marga flotta 18 holu velli flesta þriðjudaga allan veturinn frá hausti til vors ásamt Siglógolffélögum mínum. Mér finnst upplifunin stórkostleg. Reyndar eru golfhermarnir að mínu mati algjör bylting í golfíþróttinni á Íslandi. Öll aðstaða og þjónusta hjá GKG er stórkostleg og til mikillar fyrirmyndar.
Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?
Áttan er eftirlætis kylfa mín af því að ég nota hana alltaf í innáhögg þegar það er mögulegt.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu?
Nei.
Uppáhaldsnestið í golfpokanum?
Banani, góð samloka og nóg af vatni.
Hvað er lang, lang best við GKG?
Sérstaklega góð þjónusta allra starfsmanna GKG við okkur félagana hvert einasta ár.